148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi athygli sinni að þeim íþyngjandi áhrifum sem bitnað geta á skattborgurum. Mig langaði til að vega aðeins upp á móti því, leggja á hina vogarskálina skerðingu á friðhelgi, sem bitnar á öllum, líka skattborgurum. Þar koma t.d. fram áhrif eins og kosningaspjöll, sem verið hafa í umræðunni á undanförnum mánuðum, sem eru ákveðinn kostnaður fyrir samfélagið, og hagnaður fyrirtækja af friðhelgi eða persónuupplýsingum. Mér þætti áhugavert að heyra hjá hv. þingmanni hvorum megin á vogarskálinni við eigum að hafa varann á. Eigum við að hafa áhyggjur af þeim íþyngjandi kostnaði sem lendir á sveitarfélögum og fyrirtækjum og ýmsu svoleiðis eða friðhelgi einstaklinga, þar á meðal skattborgara, til þess að geta varið sig gagnvart oki stóra bróður, eins og fram kemur í títt tilvitnaðri bók Orwells? Mér þætti ánægjulegt ef hv. þingmaður væri til í að velta því aðeins fyrir sér.