148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við lendum í ákveðnum tæknilegum vandamálum hvað friðhelgi varðar. Áður fyrr var mjög erfitt að fá einhverjar upplýsingar um persónuhagi fólks því að fólk var ekki svo auðveldlega með aðgang að þeim í tækjum sem það heldur á núna eða ber með sér hvert sem er og gerir sér kannski ekki nákvæmlega grein fyrir því hvaða upplýsingar það lætur frá sér. Það sér það ekki. Það er eitt af því sem þetta frumvarp lagar að miklu leyti, að láta verður vita hvert upplýsingarnar eru að fara og helst að gefa samþykki fyrir þeim. Það er eiginleiki þeirrar tækni sem bæst hefur við frá þeim tímum þegar ekki var hægt að safna þessu. Kostnaðurinn flakkar til með tækniþróuninni og þeim möguleikum sem verða til samhliða þeirri tækniþróun. En ég er mjög sammála hv. þingmanni um að því ætti að fylgja fjármagn. Ég tel að fjárlaganefnd ætti að fara yfir þetta frumvarp þó að það endi ekki í fjárlaganefnd. Þá hlýtur frumvarpið að hafa töluverð áhrif á hin ýmsu málefnasvið. Við töluðum um persónuvernd áðan. Það eru líklega engir smápeningar sem þurfa að fara í það. Hv. þingmaður bendir einmitt á persónuverndarfulltrúana og hvaða áhrif það hefur á sveitarfélögin. Þá fer það út í tekjuskiptinguna milli sveitarfélaga og ríkis. Þetta verður rosalega áhugaverð umræða sem snertir gríðarlega marga fleti, bæði til framtíðar og frá framtíðartækniþróun og þann samfélagsstrúktúr sem við erum með núna, allt niður í tekjuskiptingu sveitarfélaga og ríkis.