148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:08]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hér ræðum við mjög mikilvægt mál, frumvarp til laga sem tengist innleiðingarreglugerð sem snýst um grundvallarréttindi og frelsi einstaklingsins, ekki síst það sem snýr að vernd persónuupplýsinga. Það er ótrúlega gott til þess að vita að þetta mál sé á dagskrá, þ.e. það sem varðar réttindi einstaklingsins, að verið sé að færa okkur rétt yfir upplýsingum um okkur sjálf. Um það snýst innleiðingarmálið. Síðan snýst það auðvitað um samræmingu á eftirliti og ýmislegt annað.

Í augnablikinu erum við hins vegar að ræða frumvarp sem er í rauninni tengt því. Þar er að sumu leyti verið að nýta svigrúm sem reglugerðin veitir. Þar hef ég spurningar og hugsanlega athugasemdir. Það er auðvitað ekki hægt að tala um þetta nema ræða aðeins meðferð málsins. Málið kom inn allt of seint, miklu seinna en boðað var, þrátt fyrir að margoft hafi verið kallað eftir því og þrátt fyrir að slíkt mál væri í farvatninu í mjög langan tíma, einhver ár, jafnvel tvö ár, og búið að ræða það hér. Ég hlýt að gera alvarlegar athugasemdir við það. Það að ætla þingmönnum að afgreiða málið á þeim nokkru dögum sem eru eftir af starfsáætlun þingsins er eiginlega óboðlegt, ekki síst í ljósi þess að nú eiga umsagnaraðilar, sem við hljótum að þurfa að reiða okkur mjög á, eftir að fara yfir þetta og nota til þess, skilst mér, tíu daga. Þá er töluvert lítið eftir af þinginu.

Í umsögn um þetta mál frá 19. mars 2018 kemur fram að Samband íslenskra sveitarfélaga gerir verulegar athugasemdir við þennan hluta málsins. Í staðinn fyrir að tala um kosti reglugerðarinnar — sem ég held að gæti runnið greiðlega í gegn vegna þess að hún er eins og svo margt annað sem kemur frá Evrópusambandinu ótrúleg réttarbót fyrir einstaklinga og ef við neitum að samþykkja hana mun það hafa mjög víðtækar afleiðingar, bæði fyrir önnur EES-ríkin og ekki síður fyrir Ísland og þau fyrirtæki sem hér eru á markaði — vil ég einbeita mér að því frumvarpi sem er til umræðu og beina sjónum mínum að þeim sveigjanleika, því svigrúmi sem ráðherra hefur og nýtir sér til þess að víkja frá reglugerðinni. Það eru til að mynda mál um aldur, um hversu lengi eigi að geyma gögn eftir dauða fólks. En það sem mig langar sérstaklega sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður að beina augum mínum að eru stjórnvaldssektir eða heimildir fyrir þeim sem eru lagðar á opinber fyrirtæki, sem sum hver hafa ekkert val um að safna upplýsingum heldur er það hluti af lögbundinni skyldu þeirra. Við búum í litlu landi og því miður enn þá í umhverfi þar sem sveitarfélög eru mörg allt of veik og stofnanir þeirra enn þá veikari. Sektarákvæðin sem gefin er heimild fyrir eru allt of há. Við erum að tala um að hægt er að leggja 2,4 milljarða kr. stjórnvaldssekt á sveitarfélag. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvaða afleiðingar það getur haft fyrir meðalsveitarfélag í landinu.

Samband íslenskra sveitarfélaga spyr hver rökin séu fyrir því að gengið sé lengra við innleiðingu en í mörgum öðrum ríkjum, lengra en reglugerðin beinlínis krefst af okkur, og varar við því. Ég spyr líka: Af hverju er þetta? Í Austurríki t.d. er fallið frá því algerlega að hafa slíka sektarheimild inni á opinber fyrirtæki og í Svíþjóð og Danmörku er hún miklu lægri. Mér finnst þetta ámælisvert, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að sveitarfélögin inna af hendi sífellt stærri hluta af þjónustu við einstaklinga í landinu, hina svokölluðu nærþjónustu. Við höfum séð ákveðna tilhneigingu þess efnis að verkefni hafa verið færð frá ríki yfir til sveitarfélaga. Það er að mörgu leyti frábær hlutur vegna þess að reynslan hefur sýnt okkur að þjónusta sem veitt er í nærsamfélagi er líklegri til að vera betri. Þar er mögulega hægt að sýna meiri sveigjanleika og aðlaga þjónustuna betur að þeim aðstæðum sem eru uppi á hverjum stað. Bakhliðin á þeim peningi er að fjármagn hefur ekki fylgt þeim verkefnum sem er verið að færa yfir á sveitarfélögin. Það er verkefni sem ég held að sé eitt það brýnasta á þingi, að endurskoða skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga, en það er önnur umræða.

Nú er verið að setja mjög íþyngjandi kröfur á sveitarfélögin sem eru sannarlega af hinu góða en menn verða hins vegar að hafa skilning á því að það er flókið mál fyrir þau að standast þær á skömmum tíma. Ég hefði þess vegna talið að ef menn á annað borð vilja beita sektarákvæðum verði að vera eitthvert meðalhóf í því. Menn hefðu átt að stilla því í hóf og ekki setja rekstur sveitarfélaga hugsanlega í uppnám. Við skulum ekki gleyma því að ef sveitarfélag lenti í þeirri hryllilegu stöðu að brjóta þessi lög hefði það ekki tök á neinu öðru en að grípa til skatttekna sinna. Og í hvað fara skatttekjur sveitarfélaga? Þær fara ekki inn á sjóði, svo mikið er víst, vegna þess að hvert einasta sveitarfélag borgar stóran hluta af aurum sínum, eins og ég sagði áðan, fyrir þá þjónustu sem ríkið er búið að skikka þau til að sinna. Það getur verið öldrunarþjónusta, málefni fatlaðra og annað. Við blasir sú staðreynd að sveitarfélag sem lendir í slíkum hremmingum þarf að nota af takmörkuðum skatttekjum sínum, sem eiga að renna til grunnþjónustunnar og að hluta til lögbundinnar grunnþjónustu, til að borga stjórnvaldssektir. Ég hefði því álitið að réttara væri að fara aðrar leiðir að þessu.

Við vitum líka að því fylgir gríðarlegur kostnaður að innleiða nýju persónuverndarlögin hjá sveitarfélögum. Það mun hafa áhrif á fjárhag þeirra. Það er mjög merkilegt að þegar lög eru sett á Alþingi er lagt á þau fjárhagslegt mat, nema þegar þau beinast að þriðja aðila eins og sveitarfélögum, þá virðist það ekki skipta neinu máli. Mér hefði fundist að það mætti fylgja í greinargerð eða öðru fyrirheit um að þar sem þetta er íþyngjandi komi ríkið til móts við það með einhverjum hætti.

Síðan er það hin hliðin á peningnum, að Persónuvernd, sem er falið að fylgjast með þessu og leggja áherslu á stjórnvaldssektir, er ekki í stakk búin til að sinna því með þeim mannafla sem hún ræður yfir. Það kom fram í ræðu hjá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur að forstjóri Persónuverndar hefði talað um að fjórfalda þyrfti mannaflann til að tryggt væri að þau gætu sinnt slíku eftirliti. Þá erum við komin að enn einum hlutnum, við erum í rauninni í spíral sem endar að lokum í tómri ógæfu, þ.e. við erum alltaf að setja ný lög með góðum ásetningi en sem er í raun ekki fyrirséð hvernig á að kosta. Það virðist vera þannig að ríkinu sé nokkurn veginn sama um það á meðan kostnaðurinn fellur ekki á það sjálft. Það er algerlega óboðlegt, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem ég var að tala um áðan þar sem sífellt stærri hluti af rekstri þjónustunnar er hjá sveitarfélögum.

Mér hefði fundist lágmark hjá ráðherra að taka með einhverjum hætti tillit til þeirra ábendinga sem koma frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem koma fram fyrir hönd sveitarfélaganna allra, alveg sama hvort þar búa hundrað og einhver þúsund manns eða nokkur hundruð — sem er auðvitað sjálfstætt vandamál — en það er ekki gert í því. Það er ekki hægt að bera því við að athugasemdirnar hafi komið seint fram vegna þess að þær eru, eins og ég sagði áðan, dagsettar um miðjan mars.

Eins mikilvægt og mér finnst að greiða fyrir þingsályktunartillögunni og innleiðingunni á kannski mikilvægustu reglum sem við höfum séð í þinginu í mjög langan tíma og varða persónufrelsi, einstaklingsfrelsi og vernd gegn algerlega nýjum veruleika, þá sé ég ekki endilega þörf á því að við ruslum í gegn þessu frumvarpi, alla vega ekki því sem lýtur að íþyngjandi ákvæðum reglugerðarinnar. Ég hefði frekar talið að við ættum að nota þann sveigjanleika sem við höfum án þess að gefa eftir þegar kemur að markmiðum reglugerðarinnar og þeim ásetningi að verja persónu- og einkalífið. Við ættum frekar að laga ákvæðin að smæð Íslands og þeim sérstöku aðstæðum sem við búum við. Ég vil að ráðherra komi hér og skýri, einhvern tíma í þessari umræðu, hver tilgangurinn sé með því að halda inni svona stífum og íþyngjandi stjórnvaldssektarákvæðum á sveitarfélög og svari því hvort ekki komi til greina að fara sömu leið og Austurríki eða, ef menn telja það algerlega bráðnauðsynlegt sem aðhald að hafa þetta sektarákvæði á opinbera aðila, að sníða það frekar í átt við það sem við sjáum í Svíþjóð og Danmörku.

Ráðherra sér sér ekki fært á að vera við umræðuna en hún hlustar væntanlega á upptökurnar, annaðhvort í Stjórnarráðinu eða seinna í kvöld eða á morgun, og þá er þessum skilaboðum komið á framfæri við hana. Það gengur ekki að annað stjórnsýslustigið í landinu, sem verður kannski það stærsta á endanum, sé skilið eftir án þess að því sé svarað.