148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki verið alveg undir það búinn þegar forseti kallaði á mig í ræðustól, en svona er þetta stundum. Mig langar í upphafi að ræða aðeins vinnubrögð og framsetningu þessa máls. Ég ætla ekki að óska eftir því, hæstv. forseti, að ráðherrann sitji undir þessari ræðu, hún verður ekkert sérstaklega góð, en mér finnst kurteisi að ráðherrann sitji undir ræðum þingmanna. Ég ætla ekki að fara fram á að hún verði kölluð í salinn en vil koma á framfæri að það væri kurteisi af ráðherranum — og þarna er ráðherrann í hliðarsal. (Dómsmrh.: Ég ætla að sitja hérna.) Gott hjá þér, hæstv. ráðherra.

Hér ræðum við stórt mál en eðlilega hefur mikið verið gagnrýnt hvernig það berst til þingsins á síðustu metrum þingstarfanna. Það mjög sérstakt í ljósi þess að unnið hefur verið mjög lengi að því. Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta sé vegna þess að stjórnarflokkarnir áttu í vandræðum með að koma sér saman um innihald málsins eða hvort vinnan var hreinlega svo mikil á lokasprettinum í ráðuneytinu að þetta tók það langan tíma.

Það er svolítið sérstakt að á dagskrá þingfundar eru tvö mál tengd þessari umfjöllun, þ.e. annars vegar frumvarpið frá hæstv. ráðherra og hins vegar tillaga til þingsályktunar sem hæstv. utanríkisráðherra á að flytja. Í ljósi þess að þetta er gríðarlega stórt og mikið mál geri ég ráð fyrir að utanríkisráðherra mæti og flytji málið komist það á dagskrá í kvöld.

Ég velti fyrir mér hvort ekki væri réttara að þingsályktunin væri á undan frumvarpinu því að frumvarpið byggir á þingsályktunartillögunni, eða eins og segir í inngangi tillögunnar, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu …“ — o.s.frv.

Ef við samþykkjum þetta er hægt að samþykkja lögin, koma þeim áfram. Mér finnst þetta svolítið undarlegt.

En örlítið að frumvarpinu. Ég verð að viðurkenna að á þeim stutta tíma sem ég hef haft til að fara í gegnum þetta mikla plagg hef ég aðeins náð að skanna það. Ég hef ekki haft tækifæri til að leita álits eða ráðfæra mig um ákveðnar spurningar sem eðlilega hafa vaknað, enda er þetta viðamikið mál. Ég get tekið undir það með þeim þingmönnum sem hafa talað að mikilvægt er að sú réttarbót sem mér sýnist málið vera nái fram að ganga. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ráðuneytið eða ráðherra gangi hér e.t.v. helst til bratt fram varðandi innleiðingu á ákveðnum breytingum á lögunum. Ég ætla ekki að fullyrða það en ég velti því fyrir mér. Ég hef ekki, eins og ég sagði áðan, getað leitað ráðgjafar um það.

Á bls. 25 byrjar greinargerðin og þar stendur, með leyfi forseta:

„Engu að síður er ráðgert í reglugerðinni að í allmörgum atriðum geti aðildarríki útfært einstök ákvæði og hafi svigrúm til að setja efnisreglur eða víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar.“

Nú velti ég fyrir mér hvort í þessu mikla plaggi sé einhvers konar samantekt á því, hvort hægt sé að nálgast það á einum stað hvort Ísland í þessu tilviki víkji frá eða innleiði þetta með einhverjum öðrum hætti, hugsanlega ítarlegri hætti, en reglugerðin gerir ráð fyrir. Ég held því að mikilvægt sé, hæstv. forseti, að óska eftir því við ráðherra að þingið fái samantekt á því hvar og hvernig vikið er frá reglugerðinni eða hún útvíkkuð umfram það sem kveður á samkvæmt beinni innleiðingu o.s.frv. Ég held að það sé mikilvægt til að glöggva sig á málinu því að það er ekkert sérstaklega auðvelt að gera það, alla vega ekki fyrir okkur sem höfum ekki stúderað málið. Ég hef hins vegar fylgst með umræðum og í þingsal hafa verið einstaklingar, þingmenn, sem þekkja málið gríðarlega vel.

Ég hef eins og nokkrir aðrir lagst aðeins yfir þessar sektarpælingar eða sektarhugmyndir og velt þeim fyrir mér. Það má lesa hér ákveðinn texta með þeim gleraugum að menn séu býsna stoltir af því að geta loksins innleitt alvörusektargreiðslur. Um er að ræða gríðarlega háar upphæðir og ef ég skil þetta mál rétt á ekki að gera mikinn greinarmun á því hvort það eru einstaklingar eða lögaðilar, en hins vegar kemur fram að taka eigi mið af launaþróun og fjárhagslegu umhverfi sem þetta getur verið í.

Sveitarfélögin fjalla um þetta og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur komið með athugasemdir þar sem það hefur áhyggjur af hinum óljósa hluta frumvarpsins sem lýtur m.a. að sektargreiðslum og hlutverki þeirra. Talað er um að vikmörk leiki á hundruðum milljóna kr., sem er kannski eðlilegt af því að þetta er nýtt. Það kemur vissulega fram í frumvarpinu, í greinargerðinni að mig minnir, að lítil reynsla sé af umfanginu og því renni menn svolítið blint í sjóinn með það. Það kann að vera þess vegna sem tölurnar eru það háar að maður staldrar við þær.

Það er ljóst að kostnaður sveitarfélaganna verður töluverður. Það er hins vegar ekki að sjá að atvinnulífið, eins og það er gjarnan kallað, hafi gert sérstakar athugasemdir við kostnaðinn og telur í rauninni að frumvarpið sé til bóta. Ég dreg ekki úr því. Það er samt áhugavert að sjá að atvinnulífið hafi ekki lagst í athugun á því hvort þessu fylgir kostnaðarauki fyrir þann hluta samfélags okkar. Kannski er það hugmynd þeirra að svo sé ekki.

Hér er talað um persónuverndarfulltrúa. Ég verð að viðurkenna að ég lagðist í að lesa um það allt saman en er ekki alveg kominn á þann stað enn þá að skilja hvort það var fyrirframmótuð hugmynd að slíkir persónuverndarfulltrúar yrðu til þegar farið var af stað í þessa vegferð, þ.e. af hálfu Evrópusambandsins, eða hvort þetta varð til á endasprettinum vegna þess að einhverjir þurftu að hafa þetta eftirlit. En það er eins og það er.

Það er eitt sem ég velti fyrir mér og langar að spyrja hæstv. ráðherra að ef hún hefur tök á því að svara því í lok umræðunnar. Persónuvernd ákveður sektir, ákveður að beita dagsektum. Ef ég hef ekki misst af því í textanum sýnist mér að það sé endanlegur úrskurður að Persónuvernd ákveði þær, auðvitað eftir stærð meints brots og þess háttar. Það sem ég velti fyrir mér er hvort það sé einhver úrskurðaraðili sem hægt er að skjóta ákvörðunum Persónuverndar til. Það getur verið að það sé textanum og hafi farið fram hjá mér en ég velti fyrir mér hvort það sé eðlilegt að svo sé eða hvort menn vilji hafa það þannig að ef Persónuvernd ákveður að leggja 500 millj. kr. sekt á sveitarfélag eða lögaðila þá standi það. Kannski er hægt að sækja það fyrir dómstólum, ég þekki það ekki, man ekki hvernig það er orðað, en væntanlega er það þannig. Við höfum alveg dæmi um að hægt sé að skjóta svona ákvörðunum til úrskurðarnefnda. Ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað sem gæti átt við hér, en allt eru þetta vangaveltur.

Annað sem kemur fram í greinargerðinni, ég held að þar sé verið að fjalla um 45. gr., er um refsiábyrgð. Það er þannig að í stað refsiábyrgðar koma stjórnvaldssektir og refsiábyrgð lögaðila aflögð og þá á það við hvort sem er um einkaaðila eða opinbera aðila að ræða. Það er nánar farið yfir þetta í 46. gr.

Þetta eru ítarlegar útskýringar, sem er að sjálfsögðu mjög gott. Í umfjöllun um 46. gr. er fjallað um þessar upphæðir sem geta í lægri flokki verið frá 100.000 til 1,2 milljarðar kr. og í hærri flokki, ef ég hef náð því öllu saman, getur sektin verið allt að 2 milljarðar. Það sjá allir að það eru mjög fáir sem ráða við slíkar sektir. Ég er enginn sérfræðingur um það hversu háar upphæðirnar eiga að vera en þetta eru verulega háar upphæðir.

Ég var búin að nefna vangaveltur um hvort ætti að vera hægt að skjóta slíkri ákvörðun til úrskurðar eða þess háttar.

Virðulegi forseti. Þetta er gríðarlega umfangsmikið mál. Ég held að flestir séu sammála um að það sé væntanlega til bóta fyrir okkur einstaklingana, fyrir okkur sem höfum áhyggjur af því hvernig er farið með persónuupplýsingar okkar. Það er verið að skýra og herða á reglunum og á leikreglunum.

Ég hef ekki þekkingu á því hvernig þær upplýsingar eru notaðar, litla þekkingu í það minnsta, en ég geri mér grein fyrir því að hægt er að misnota persónuupplýsingar eins og svo margt annað og eflaust er það gert. Við höfum svo sem séð og heyrt dæmi um erlenda aðila, eins og það fyrirtæki sem var nefnt í þingsal í dag, Cambrigde Analytica, ef ég man rétt, og eflaust eru þau fleiri.

Það er því ástæða til að fagna því að reyna eigi að taka á eða girða fyrir að fyrirtæki eða aðrir sem kunna ekki að fara með svona upplýsingar noti þær á óeðlilegan hátt.

Eitt af fylgigögnum frumvarpsins er álit Stefáns Más Stefánssonar prófessors, gert 14. desember 2017, um það hvernig hægt er að innleiða þetta út frá íslenskri stjórnarskrá, íslensku réttarfari o.s.frv. Þar er bent á leiðir sem hægt er að fara til þess að við göngum ekki of nærri framsali valds, sem okkur er óheimilt samkvæmt stjórnarskrá okkar. Það er mjög mikilvægt að sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar, væntanlega allsherjar- og menntamálanefnd, gefi sér góðan tíma til að fara yfir það hvort í frumvarpinu sé gert nógu vel grein fyrir því hvernig að þessu öllu saman er staðið.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar kemur þetta mál inn á síðustu metrum þingsins. Þetta er stórt og mikið mál. Það var sorglegt að fylgjast með umræðunni í dag, sérstaklega hjá stjórnarliðum, þegar við stjórnarandstaðan gagnrýndum málið. Mönnum fannst þetta ekki stórmál, sérstaklega fannst mér það koma fram hjá ráðherra málaflokksins og þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, heldur hefðu þingmenn átt að vera búnir að kynna sér málið á netinu og látið í það skína að það ætti að duga.

Það vekur okkur til umhugsunar um það hvort það sé almennt viðhorf að í lagi sé að koma með slíkt mál, svo stórt mál, inn í þingið og ætlast til þess að það fái sérstaka flýtimeðferð. Kannski er það vegna þess að við gerum okkur öll, held ég, grein fyrir því að mál þetta þyrfti helst að klárast í sumar þannig að allir sitji við sama borð innan Evrópska efnahagssvæðisins, en að sjálfsögðu verður að gæta vel að lagasetningunni og vanda til verka. Alþingi þarf að gefa sér tíma til að fara yfir málið og getur ekki látið slíkar dagsetningar reka á eftir sér. Það verður þá því miður að vera þannig að menn lendi vanda og klúðri með þetta en það er ekki er við Alþingi að sakast heldur stjórnarflokkana, sem bera ábyrgð á málinu, ef málið tefst á einhvern hátt.

Ég vil hvetja nefndina sem fær málið til umfjöllunar til að gefa sér góðan tíma til að fara yfir það og óska eftir umsögnum, vanda mjög til verka og leita eftir áliti sérfróðra aðila telji menn þess þörf.