148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum spurningarnar. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hversu víðtækt samráð var haft við gerð þessa frumvarp en ljóst er að a.m.k. Samband íslenskra sveitarfélaga og atvinnulífið, eins og það er kallað, komu eitthvað að málum, fengu að líta á og skoða þetta. Ég átta mig hins vegar ekki á því hversu ítarlegt það var og held að mikilvægt sé að nefndin kalli eftir ítarlegri umræðu og skoðunum frá þeim aðilum á málinu.

Líkt og ég sagði ítrekað í ræðu minni áðan hef ég ekki náð að lesa þetta algjörlega ofan í kjölinn en eins og ég skil málið er töluvert svigrúm varðandi sektargreiðslurnar. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að fá svör við því hvers vegna þessar upphæðir eru eða hvaða leið er farin, hvort hægt er að gera það öðruvísi o.s.frv.

Ég held þess vegna að líka sé mikilvægt að fá þá samantekt sem ég nefndi í ræðu um það hvar er verið að bæta í eða víkja frá meginreglum eða þeim texta sem kemur fram í reglugerðinni frá Evrópusambandinu, hvar við göngum lengra, hvar við göngum skemur, ef það er einhvers staðar. Það tel ég að verði að lista upp fyrir okkur.

Það er mikilvægt að það svigrúm sem menn hafa í lagasetningunni komi fram. Við vitum alveg að í mjög mörgum tilfellum er ákveðið svigrúm þegar við inleiðum reglugerðir frá Evrópusambandinu en því miður finnst manni stundum að við göngum býsna langt í innleiðingunni.