148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[20:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar spurningar og vangaveltur. Ég náði aðeins að staldra við refsirammann í þessari hröðu yfirferð á annars ágætu máli. Ég treysti mér ekki til að svara því hvort það sé líklegt eða ólíklegt hvort Persónuvernd — og nú vil ég taka það fram, virðulegi forseti, að það er fjarri mér að efast um heilindi eða þekkingu eða getu starfsfólks þeirrar ágætu stofnunar til þess að taka slíkar ákvarðanir. Við þurfum bara að gæta vel að öllum réttaráhrifum í þessu, því að menn þurfa að geta borið hönd fyrir höfuð sér.

Ég get ekki sagt um hvort það sé líklegt eða ólíklegt eða hvernig þessum heimildum verði beitt. En eins og fram kemur í textanum einhvers staðar í þessu mikla plaggi er gengið út frá því að menn gæti hófs við slíkar ákvarðanir. Talað er um launaþróun í landinu og eitthvað þess háttar og svo framvegis. Þá má hins vegar líka velta fyrir sér hvort hreinlega sé skynsamlegra þegar kemur að lögaðilum að miðað sé við einhvers konar veltu, þ.e. það sé hreinlega sett inn til viðmiðunar að veltutengja sektir, að þau fyrirtæki sem eru risastór og með mikla veltu viti ef þau gerast brotleg þýðir það nákvæmlega þetta. Það er ein leið.

En ég hef aðeins smávegis áhyggjur af því að þeir sem telja Persónuvernd, í þessu tilviki, brjóta á sér með því að sekta eða eitthvað slíkt, þurfi að leita til dómstóla til að fá úr því skorið — ég velti fyrir mér hvort allir ráði við slíka ferð fyrir dómstóla og hreinlega út frá kostnaði.