148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[20:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta er mjög áhugaverð spurning. Ef menn þora ekki að fara í ákveðna þróun eða nýsköpun vegna þessara gríðarlega háu sekta er það vitanlega slæmt, því að verið er að draga úr þeirri nýsköpun sem við þurfum svo mikið á að halda. Menn tala gjarnan um að þurfum að fara inn í nýja öld, um fjórðu iðnbyltinguna og allt það sem fer inn í allar góðar ræður hjá ríkisstjórninni þessa dagana. Þá verða menn vitanlega að passa að þetta virki ekki letjandi fyrir það.

Á móti kemur að viðkomandi aðili sem er að þróa eitthvað getur leitað sér ráðgjafar og fengið aðstoð, mögulega frá yfirvöldum, kannski Persónuvernd og leitað til þeirra, en væntanlega kostar það peninga. Þá er spurning hvort verið sé að auka um leið þróunarkostnað með þessu og kostnað þeirra sem eru að reyna að gera eitthvað sniðugt úr upplýsingum, sem ég held að engum detti í hug að sé slæmt að séu nýttar, sé það gert með eðlilegum og réttum hætti. Í það minnsta myndi ég ekki vilja fara einhverja áratugi aftur í tímann þar sem ekki væri hægt að nýta upplýsingar sem menn geta safnað saman. En þetta er vandratað.

Gagnasparsemi. Ekki hefði það nú hvarflað að mér, en það er vissulega mjög áhugavert að menn eða fyrirtæki og stofnanir fari hreinlega fari að halda að sér höndum þegar kemur að því að safna gögnum eða vinna úr gögnum, af ótta við að lenda einhvers staðar úti á túni, ef má orða það þannig. Þarna þarf að finna meðalveg. Það er einfaldlega þannig.

Ég vona svo sannarlega til þess að nefndin fari vel yfir málið og reyni að finna lausnir á þessum spurningum. Það er mikilvægt að fá svör við þeim í það minnsta. Ef eitthvað er óljóst í þessu öllu saman þurfum við einfaldlega að skoða hvort breyta þurfi frumvarpinu með því að fresta einhverjum ákvæðum eða draga úr eða eitthvað þess háttar.