148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[20:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að velta örstutt upp einu atriði til viðbótar við þetta, hvort það skipti einhverju máli hvort rekstur á þessum grunnkerfum sé í höndum opinberra aðila eða einkaaðila. ISNIC t.d. heldur utan um landslénið .is og var illu heilli einkavætt á sínum tíma. Símaskráin var sömuleiðis einkavædd á sínum tíma, af því að þingmaðurinn nefndi hana. Ég velti fyrir mér hvort þessi vandamál væru yfirstíganlegri ef það væri enn þá opinbert eignarhald á þessu eða hvort reglurnar séu þær sömu hvort heldur sem er.

Mér dettur í hug frumvarp um lögheimili sem við erum með til umfjöllunar á þinginu þar sem er verið að byggja inn í kerfið þann möguleika að vera með dulið lögheimili þannig að maður sé í miðlæga grunninum en geti valið að birtast ekki í leit utan þess sem hinn opinberi aðili þarf til að geta skattlagt mann og hvað það er sem lögheimili er notað til. Ég velti fyrir mér hvort einhverjir svona fídusar þurfi að byggjast inn í kerfið hér þar sem við erum nú þetta samtengda nettengda samfélag og reiðum við okkur dálítið mikið á þessa sameiginlegu grunna.