148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég verð að gera sérstaka athugasemd við að hæstv. forseti skuli ekki hafa brugðist við mjög alvarlegum athugasemdum sem hér hafa komið fram um hrein og klár svik meiri hlutans á ákveðnu samkomulagi sem gert var fyrir þinghlé. Ég er ekki að tala um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um eflingu Alþingis sem allir gátu gefið sér að væri einhvers konar öfugmæli í Orwell-stíl. Ég er að tala um sérstakt heiðursmannasamkomulag eins og ég hélt að það ætti að vera, sem var gert eftir að stjórnarandstaðan, einu sinni sem oftar, var reiðubúin til að liðka fyrir málum hér á þingi. Á móti bað hún um að nokkrum málum sem höfðu verið tekin í gíslingu í nefndum þingsins, brýnum málum, yrði hleypt út úr nefndum. Það var samið um þetta. Reyndar féllst meiri hlutinn ekki á að þetta yrði gert fyrir hlé, taldi ekki tíma til þess þá, en lofaði á móti því að þessi mál kæmust út, gíslamálunum yrði sleppt strax að hléi loknu. Hvers vegna ætlar stjórnin ekki að standa við þetta? Nú legg ég til að hæstv. forseti geri hlé á þessum þingfundi og einhendi sér í að laga þessi mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)