148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

hvalveiðar.

[11:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Samráð. Úttekt. Heilsteypt. Ég er að verða bara býsna leiður á þessu. Ég spyr: Hyggst ríkisstjórnin grípa til aðgerða til að stöðva og hindra að þessar veiðar fari af stað aftur? Vegna þess að það getur hún.

Við horfum upp á Vinstri græn gefa eftir í nánast öllum málum á umhverfissviðinu. Nú síðast í vikunni tekur hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra og kremur hugmyndir um borgarlínu sem er þó stærsta umhverfisátak sem við gætum ráðist í. Fyrir hvað ætlar hæstv. umhverfisráðherra að standa ef hann ætlar ekki að stöðva hvalveiðar? Það væri bara mjög gott að heyra það skýrt. Ég nenni ekki að sitja hérna og hlusta á „samráð“, „heilsteypt“, eða „sitja í nefnd“. Ríkisstjórnin hefur þetta í höndum sínum.

Ég vil bara fá að heyra: Mun hæstv. ráðherra beita sér eða mun hann ekki gera það? Vegna þess að það hlýtur að vera mjög skýr vitnisburður um (Forseti hringir.) fyrir hvað Vinstri græn standa í umhverfismálum í dag.