148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

endurskoðun skaðabótalaga.

[12:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þekki áhuga hv. þingmanns á endurskoðun skaðabótalaganna. Fyrir þinginu liggur einmitt frumvarp sem ég mælti fyrir fyrr í vetur um endurskoðun á mjög afmörkuðum þætti skaðabótalaganna. Í framsögu minni um það mál lýsti ég því yfir að í kjölfarið væri nauðsynlegt að endurskoða skaðabótalögin í heild sinni. Það hefur í raun staðið til og ég held að menn hafi verið að hreyfa við því í a.m.k. áratug, nauðsyn þess að gera það. Ég er mjög áfram um að það verði gert og áréttaði það þess vegna við framsögu þess máls sem liggur fyrir þinginu að afgreiða. Mér skilst að það sé til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég hef líka heyrt því fleygt hér í þinginu að menn vilji mögulega fresta því máli og taka þetta allt saman í heildarendurskoðun. Það þarf þingið að sjálfsögðu að meta, hvort sú verði niðurstaðan í því máli. En ég tel einboðið að skaðabótalögin í heild verði endurskoðuð og þá þarf að líta til ýmissa þátta. Það kann að vera að skoða þurfi sérstaklega þann þátt sem hv. þingmaður nefndi hér, þ.e. bindingu útreikninga við lánskjaravísitölu eða einhverja aðra vísitölu, launavísitölu. Þetta er að sjálfsögðu sjónarmið sem þarf að skoða en ég get ekki svarað því hér og nú hver afstaða mín í einstökum þáttum, í tæknilegri útfærslu, yrði. Ég legg bara áherslu á að vinna við þessi skaðabótalög, undirbúningur að endurskoðun þeirra er hafinn í dómsmálaráðuneytinu. Málið kemst á fullt skrið næsta vetur.