148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð annarra þingmanna þegar kemur að því hvernig raðað er á dagskrá og bendi á að fjöldi mála sem komin voru lengra í umræðu hefðu kannski átt að vera í forgangi í dag. Hér er talað um að þetta sé brýnt mál af því að heimild til gjaldtöku sé að renna út. Það er hægur vandi fyrir þingið að taka á slíkum vanda. Ríkisstjórnin boðaði að mikilvægt væri að ná sátt um veiðigjöldin, að mikilvægt væri að veiðigjöldin skiluðu þjóðinni eðlilegu afgjaldi fyrir bæði aðgang og arðsemi auðlindanýtingarinnar.

Hér er skyndilega hlaupið fram með einhverja skítareddingu sem á að lækka veiðigjöldin um 3 milljarða án þess að á undan hafi farið nokkur greining á því hvernig þessu máli væri best fyrir komið til lengri tíma litið. Ég skil ekki svona vinnubrögð. Hér er engin neyð í stærstum hluta sjávarútvegsins. Talað er um að greinin sé komin að þolmörkum með 16% EBIDTA. Ég þekki það af ágætri reynslu að það eru bara afar fáar atvinnugreinar (Forseti hringir.) á Íslandi sem búa við svo háa EBIDTA-framlegð og sjávarútvegur sem sagður er í neyð við slíkar aðstæður. (Forseti hringir.) Ég spyr þá: Hvernig er með rekstur annarra fyrirtækja hér í landinu (Forseti hringir.) ef þessi grein er í algerri neyð?