148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að spyrja hæstv. forseta hvort hann hyggist standa við þann tíma að byrja fund með þingflokksformönnum klukkan hálfeitt, sem er u.þ.b. núna, eða hvort forseti hyggst halda áfram hér að sýna þingflokksformönnum og þingmönnum það vald sem hann hefur á þinginu. Mér sýnist við vera komin á þann stað.

Ég kem hér fyrst og fremst upp til þess að mótmæla harðlega þeim orðum forseta að stilla málum þannig upp að það séu bara þessi tvö mál sem deilt er um á dagskránni vegna þess að þau eru tilbúin úr nefndum.

Virðulegi forseti. Hvers vegna eru mál ekki tilbúin í nefnd? Það er vegna þess að stjórnarmeirihlutinn heldur þeim í gíslingu. Það er þess vegna þau eru ekki komin út. Meira að segja mál sem samið var um fyrir nokkrum vikum síðan að yrðu kláruð.

Það er alveg merkilegt ef forseti Alþingis ætlar ekki með nokkrum einasta hætti að beita sér fyrir því að þessi mál séu leyst, að staðið sé við samkomulag sem hér var gert, að dagskráin sé með þeim hætti að um hana geti ríkt sátt. Þá er forseti ekki forseti allra þingmanna (Forseti hringir.) og er augljóslega að sýna þingmönnum hvaða vald hann hefur í sæti sínu.