148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf gaman þegar það koma rök fyrir í ýmsum ákvörðunum og rökin sem voru lögð fram af hálfu forseta fyrir því að málið um kosningaaldur væri ekki á dagskrá voru þau að hér hefðu verið langar og tafsamar umræður. Þá myndi ég vilja spyrja forseta hvort hann geri ráð fyrir stuttum og auðveldum umræðum um veiðigjöld. Annars vil ég taka undir orð hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um fjármálaáætlun, hún er ekki komin til 2. umr. þegar örfáir þingdagar eru eftir. Ætlum við að lenda enn einu sinni í míkróumræðu um fjármál hins opinbera? Í alvöru? Við höfum verið knúin til þess af kosningaástæðum í umræðum um fjárlög að undanförnu, en við höfum möguleikann núna til þess að gera þetta rétt og gera þetta vel (Forseti hringir.) og ná góðri umræðu. Nei, við erum að ákveða það einhvern veginn að (Forseti hringir.) geyma þetta undir lok þinghalds og setja tvo daga í það. Það er verið að þröngva (Forseti hringir.) þessu upp á okkur. Þetta er ömurlegt.