148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gera athugasemd við það að hæstv. forseti hafi enn ekki svarað því sem þingmenn hafa bent sérstaklega á, samkomulag sem var gert áður en þingið fór í hlé vegna sveitarstjórnarkosninga. Er ekki ætlun virðulegs forseta að standa við það samkomulag? Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forseta að halda því fram hér að öll mál séu á dagskrá sem komin séu úr nefndum. Forseta var fullkunnugt um hvar vandinn lægi, að þessum málum væri haldið í gíslingu — í nefndum. Um það var samkomulagið, að málin yrðu frelsuð úr gíslingu svo þau kæmust á dagskrá á þinginu.

Hæstv. forseti hlýtur að ætla að beita sér fyrir því að þetta samkomulag verði virt því að minni hlutinn ákvað fyrir hlé að gera ekki stórmál úr því þó að málin kæmust ekki út fyrir hlé í trausti þess að staðið yrði við yfirlýsingar um að strax að hléi loknu yrði þessum málum hleypt út.