148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég hef í tvígang spurt hæstv. forseta hvort stjórnarmeirihlutinn hyggist svíkja það samkomulag sem gert var við minni hlutann hér fyrir þinghlé. Þetta var formlegt samkomulag. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvaða augum hæstv. forseti lítur framhaldið ef hann telur að ekki þurfi að standa við samkomulag sem gert er. Telur hæstv. forseti að það muni auðvelda okkur að ná niðurstöðu um framhaldið? Eða ímynda menn sér e.t.v. að hægt sé að semja aftur um það sem búið var að afgreiða á sínum tíma? Ég skil ekki hvernig stjórnarmeirihlutinn ætlar að nálgast þessi mál nú við lok þingstarfa ef menn ætla að byrja hér eftir hlé á að svíkja það samkomulag sem var gert rétt fyrir hlé.