148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ég hafði kannski ekki áttað mig á því að frumvarpið um veiðigjöldin hefði verið unnið af hæstv. ráðherra og í ráðuneyti hans. Ég verð bara að viðurkenna að það hafði farið fram hjá mér. Þeim mun sérkennilegra er að ráðherra skuli ekki vera hér sjálfur til að mæla fyrir málinu í stað þess að leggja það upp í hendurnar á hv. atvinnuveganefnd að gera slíkt. Maður veltir fyrir sér hvers vegna svo sé. Ég segi eins og sumir þingmenn: Hvar í ósköpunum er hæstv. sjávarútvegsráðherra? Hann er þekktur fyrir að bregða sér á sjó á sumrin, kannski er hann kominn í sumarfrí og farinn á sjó með félögum sínum fyrir norðan. Ég veit það ekki.

Virðulegi forseti. Ég kalla enn og aftur eftir því hvort forseti hafi þá skoðun að standa eigi við samkomulag þegar menn gera slíkt samkomulag. Forseti hefur engu svarað varðandi slíkt. Forseti hefur ekki svarað því heldur hvort hann hyggist beita sér fyrir því að staðið verði við það sem samið var um hér fyrir nokkrum vikum. Þetta er einföld spurning, virðulegi forseti. Ég hlýt að ætlast til þess að hæstv. forseti svari því hvort forsetinn, í valdi síns embættis, muni beita sér fyrir því að þessi mál (Forseti hringir.) fái að fara úr nefnd í stað þess eingöngu að sýna vald sitt hér í þingsal.