148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[15:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég rétt missti af upphafi þingfundar áðan eftir að fundi hæstv. forseta lauk með þingflokksformönnum. Ég vil gjarnan vita hvort þingheimur hafi verið upplýstur um þá niðurstöðu, það hlýtur að hafa komið einhver niðurstaða út úr þeim fundi og forseti hlýtur jafnframt að hafa beitt sér fyrir einhverri lausn á þeirri óreiðu sem m.a. er tilkomin vegna hans stjórnar. En ég skil hæstv. forseta vel. Hann er að reyna að sinna hlutverki sínu sem þingforseti að láta dagskrána ganga áfram, en staða hans er líka þeim vandkvæðum bundin að hann er hluti af stjórnarliðinu.

Þess vegna vil ég gjarnan fá að vita hvort hæstv. forseti ætli ekki að beita sér fyrir því að breyta dagskránni, sammælast við bæði stjórn og stjórnarandstöðu um að við förum yfir dagskrána núna og nýtum tímann í að fara yfir umfangsmikil mál eins og persónuvernd það sem eftir er af þingi og við eigum líka eftir að taka mikla umræðu um fjármálaáætlun. Þessi tvö mál þurfa svigrúm í dagskrá þingsins.

Við erum að sjálfsögðu reiðubúin til þess að veita fullt svigrúm til þess að fara gaumgæfilega yfir þau mikilvægu mál. Ég tel mikilvægt að hæstv. forseti sýni á spilin til að reyna að ná sátt og vinnufriði á þingi. Eins og ég hef talað um þá eru lokadagar hvers þings prófsteinn á það hvernig forseti er sem stjórnandi þingsins. Ekki sem verkstjóri fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, heldur sem stjórnandi, liðsmaður löggjafarvaldsins, (Forseti hringir.) liðsmaður þingmanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.