148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[15:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er mikilvægt að hæstv. forseti brýni núna nefndarformenn að fara að afgreiða þau mál sem var samkomulag um fyrir þinghlé að afgreiða frá öllum flokkum og þá vil ég náttúrlega sérstaklega beina augum að stjórnarandstöðunni. Það eru mál sem eru óumdeild, mál sem hafa verið vel unnin og það var samkomulag. Orð skulu standa. Það var samkomulag um að þau ættu að koma inn strax eftir þinghlé. Það hefur ekki gerst enn því það er eins og að ríkisstjórnin þurfi enn þá að víla og díla innan borðs, en það hún á líka eftir að taka þetta samtal við okkur sem erum í stjórnarandstöðunni. Það er eins og hún kveinki sér undan því.

Ég vil hvetja hæstv. forseta til þess að fara í þann farveg að reyna að breyta starfsháttum þingsins, reyna að auka veg og vegsemd þingsins, sýna þá velvild að reyna ná samkomulagi um þá dagskrá sem við erum reiðubúin til þess að setjast yfir. Ég er búin að lýsa því yfir að við eigum eftir mikla umræðu um persónuverndina og fjármálaáætlun. (Forseti hringir.) En öðruvísi mér áður brá ef Vinstri græn eru að beita sér fyrir því að lengja þingið (Forseti hringir.) til þess eins að lækka veiðigjöld.