148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

tilkynning.

[15:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek bara undir það sem komið er fram. Hér er eiginlega öllu snúið á haus. Hinar óskráðu reglur, gömlu, sem kannski eru orðnar úreltar og gamaldags, hver veit, við bíðum eftir svörum við hinum nýju, kveða á um að það sé komist að samkomulagi um ákveðna hluti. Eða svo ég bakki kannski frekar, þar er kveðið á um að það sé staðið við samkomulag sem gert er um ákveðna hluti. Síðan setjumst við niður og förum yfir að við þurfum lengri fundartíma eins og gjarnt er þegar komið er á lokasprettinn, því það eru mörg þörf mál sem bíða. En þetta óvænta hliðarskot úr myrkrinu setur þetta allt í uppnám. Það er algerlega af og frá að hér geti maður staðið og samþykkt lengri fundartíma, hvort sem um er að ræða lengri fundi eða fleiri daga í þinghald þegar svona er í pottinn búið. Það er ekkert samkomulag. Sú er staðan.