148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

tilkynning.

[15:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er allt í bullandi ágreiningi. Ef herra forseti væri nú skynsamari myndi hann sjá að það myndi greiða fyrir öllum störfum að ná samkomulagi við minni hlutann. Við myndum á endanum uppskera ríkulega í þinglok. Hér eru nefnilega hans orð gegn orðum nokkurra þingflokksformanna. Ég hvet hann til að reyna að semja um þetta mál.

Og af því að hér er kominn hæstv. sjávarútvegsráðherra sem þorði ekki að leggja málið sjálfur fram sem ágreiningur er um, ætlast ég til þess að fari svo að gefin verði heimild fyrir lengri þingtíma í dag sjái þeir sóma sinn í því sem greiða atkvæði með því, líka hæstv. sjávarútvegsráðherra, að sitja hér og taka þátt með okkur hinum í umræðunum fram á nótt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)