148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

tilkynning.

[15:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og fleiri, fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra er kominn í salinn til að vera viðstaddur umræðuna ef hún fer nú af stað. Hvers vegna flytur ráðherrann ekki sjálfur það mál sem hér er verið að deila á. Mér er spurn. Er það vegna þess sem síðasti ræðumaður ræddi um eða er það vegna þess að það er augljóst að meiri hlutinn kom sér ekki saman um málið innan ríkisstjórnar? Hvers vegna ákveður ráðherrann að vísa því til nefndarinnar? Er þetta enn eitt dæmið um kjarkleysi Sjálfstæðisflokksins sem við höfum séð svo mikið af undanfarna daga og vikur í þinginu? Er þetta enn eitt dæmið um að Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki til að horfa framan í fólk og setja sjálfur málin á dagskrá? Þetta er að verða svolítið algengt með þennan gamla flokk.

Ég get ekki samþykkt lengri þingfund. Til hvers í ósköpunum ættum við að gera það? Til hvers ættum við að vinna með forseta að því að lengja þingið þegar forseti hefur ekki sýnt nokkurn vilja í dag til að hlusta á stjórnarandstöðuna, hlusta á kvartanir okkar um að hleypa að málunum sem við erum búin að bíða eftir úr nefndum, svo dæmi sé tekið? Nei, forseti hefur ekki gefið eitt bofs upp um það hvernig hann ætlar að beita sér í þessu máli.