148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta er nú ekki besta ásýnd þingsins þegar málum er skipað eins og nú er. Sjálfum leiðist mér svona stagl og leiðindi eins og hér er á ferðinni. (Gripið fram í: Hættu því þá bara.) Nei, ég held nefnilega að ég haldi því bara áfram. (Gripið fram í.) Það er reyndar með ólíkindum að sjá hversu stutt ný ríkisstjórn hélt það út að standa við hið margpredikaða erindi sitt um bætt vinnubrögð. Það er alveg ótrúlegt að ríkisstjórn sem virðir sig einhvers bjóði upp á svona fúsk og föndur eins og hér er í gangi og ætla að fara í jafn stórpólitískt mál jafn illa undirbúið, jafn illa fram sett, jafn órökstutt og hér er á ferðinni. Ég er ekki hissa á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra vilji ekki flytja þetta mál, hvílík hrákasmíð sem það er. En að ætla að bjóða þinginu upp á það að rusla þessu í gegn með engan tíma til að vanda til verks, það eru algerlega óboðleg vinnubrögð.

Það verður líka að velta því fyrir sér, hafandi haft (Forseti hringir.) hálfan mánuð í þinghléi til að skipuleggja þingstörfin fram að þinglokum, hvernig þingið hefur hafa verið. Fyrsti dagur eftir þinghlé: Verklaus með öllu. Annar dagur: Ja, við getum sagt á hálfum afköstum. Og á þriðja degi er komið (Forseti hringir.)og beðið um næturfund af því að allt er komið í óefni. Þetta er ekkert skipulag á þinghaldinu. (Forseti hringir.)Það er ekkert samkomulag um hvernig því verður fram haldið. Þetta eru algerlega (Forseti hringir.)óþolandi vinnubrögð, þetta er fúsk, herra forseti.

(Forseti (SJS): Forseti biður þingmenn að gæta að tímamörkum, hvað sem ágreiningi um aðra hluti líður. )