148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í von um að hæstv. forseti setji sig í spor okkar í stjórnarandstöðunni varðandi þessa atkvæðagreiðslu langar mig að biðja hæstv. forseta að ímynda sér að hann væri í stjórnarandstöðu og væri ekki bara hvaða stjórnarandstæðingur sem er, heldur þingmaður sem lengi var formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og við munum flestir eftir og vonandi hæstv. forseti líka. Ef málin horfðu þannig við og hér væri ríkisstjórn væri með öll sín mál í óreiðu, hefði komið með þetta mál allt of seint og illa unnið og þing hefði komið saman eftir hlé þar sem fyrstu aðgerðir meiri hlutans snerust um annars vegar að skella á dagskrá risastóru máli, óræddu, og hins vegar að svíkja það samkomulag sem var gert við stjórnarandstöðuna rétt áður en hlé hófst, hvernig væri þessi stjórnarandstæðingur við þær aðstæður? Hvernig myndi hann bregðast við þessari atkvæðagreiðslu? Ætli rómurinn væri ekki hækkaður aðeins og einn og jafnvel tveir hnefar færu á loft? Því bið ég virðulegan forseta að setja sig nú í spor okkar í stjórnarandstöðunni hvað varðar áform hans í þessari atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)