148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að lifa í voninni í dag um að forseti myndi lýsa því yfir að hann hygðist beita sér fyrir því að staðið yrði við það samkomulag sem hér var gert fyrir þinghlé, en þess í stað hefur forseti í rauninni hreytt í okkur því að það komi honum ekki mikið við, ef ég hef skilið forseta rétt, eða alla vega hafi hann ekki svikið neitt. Ég veit svo sem ekki alveg hver á þá að bera ábyrgð á því að staðið sé við samninga. Það má eflaust vísa á nefndarformenn eða þingmenn stjórnarmeirihlutans, en allt er þetta vitanlega gert undir handleiðslu forseta sem stýrir jú þinginu og hefur alræðisvald, í það minnsta í þessum þingsal.

Það eru mér því mikil vonbrigði að við séum enn þá á sama stað þegar kemur að atkvæðagreiðslunni, að ekki séu komnar fram neinar upplýsingar um að standa eigi við fyrri samninga. Það er ekki gott nesti inn í þá samninga sem gera þarf á næstu dögum, virðulegi forseti.