148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Núverandi stjórnarandstaða hefur verið alveg sérstaklega hjálpsöm og liðleg gagnvart þessari ríkisstjórn, að því marki að stundum hefur jafnvel mér þótt nóg um. En það eru samt ákveðin takmörk, ekki er hægt að ganga endalaust á lagið. Framganga stjórnarmeirihlutans í dag og núna bara eftir þinghlé hefur verið með stökustu ólíkindum. Raunar finnst manni það vera hrein ósvífni að fara fram á lengingu þingfundar þegar sá fundur á eingöngu að snúast um að staðfesta svik, hrein og klár svik stjórnarmeirihlutans hér á þinginu gagnvart minni hlutanum, svik á samkomulagi sem var gert með ákveðnum hætti, sem lá algerlega skýrt fyrir fyrir hlé og hefur nú verið svikið og staðfest með þessari atkvæðagreiðslu, með því að ákveða að halda enn lengri fund um annað en samið hafði verið um. Ég segi því nei.