148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[16:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Nú erum við komin að greiða atkvæði um hvort við eigum að hliðra til fyrir þessu umdeilda máli. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef ekki mótað mér afstöðu til málsins sem slíks. En að málið sé tekið inn með þessum hætti fær mig til að greiða gegn því að það fái meðferð í þinginu með þessum hætti, þ.e. að það sé tekið fram fyrir önnur þingmannamál og jafnvel mál sem áður hefur verið samið um, eins og ég hef margsinnis bent á.

Ég veit ekki hvort stjórnarmeirihlutinn hugsar sér að reyna að semja þá aftur um að þau mál nái fram að ganga sem svikið hefur verið undanfarið af þeirra hálfu. Það kann vel að vera að það sé hugsunin, en það mun ekki ganga. Stjórnarandstaðan lætur ekki semja við sig tvisvar um sömu málin. Það er mjög mikilvægt að forseti nýti það vald sem hann hefur til að grípa inn í þessa atburðarás.