148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[16:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni. Þetta mál er vond pólitík, en einnig hefur verið illa að framgangi þess staðið. Nú má vel vera að einhverjar útgerðir þurfi á hjálp að halda, en ekki allar, sannarlega ekki allar. Þetta frumvarp, að dreifa 3 milljörðum til allra þessara fyrirtækja, er svipað og að skjóta mýflugu með fallbyssu. Það er aldrei sniðugt.

Nú lýsi ég eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra sem situr hér komi í stólinn og útskýri af hverju hann skortir kjark til að bera fram málið fram sjálfur, vegna þess að þá væri málið í forgangi. Hvað hefur hann sér til málsbóta þegar hann forgangsraðar þannig fólk sem ekkert hefur með peninga að gera fær fullar hendur fjár á meðan öryrkjar, aldraðir, barnafjölskyldur og fleiri sitja eftir með sárt ennið? (Forseti hringir.) Hæstv. sjávarútvegsráðherra, vinsamlegast komdu og stattu fyrir máli þínu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)