148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[17:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er vissulega óheppilegt að veiðigjöldin séu gerð upp þremur árum seinna. En það er samt fyrirsjáanleiki í þessu. Þetta er í lögum. Það er ekkert ófyrirsjáanlegt eða óvænt að gerast þótt ári verr nú en fyrir þremur árum. Það verður bara að leggja fyrir og safna í sarpinn miðað við það hvernig gekk á hverju ári fyrir sig. Það myndi ég halda að væri mjög eðlilegt. Það er frekar óvenjulegt að það þurfi einhvern veginn að redda því sem fer illa núna af því að það gekk vel fyrir þremur árum.

Mig langar til að bæta við: Hér koma stjórnarandstöðuþingmenn upp og lýsa áhyggjum sínum af þessu máli. En stjórnarliðar sitja, þegja og ýta á takka. Engar útskýringar, engin rök. Ég kalla eftir afstöðu stjórnarþingmanna, byggðri á þeim útskýringum sem ég kallaði eftir áðan, um hvar og af hverju þetta er nauðsynlegt, til dæmis vegna byggðasjónarmiða eins og útskýrt var af stjórnarþingmanni í upphafi, sem virðist þó ekki (Forseti hringir.) standast nein rök því að þetta kerfi hefur ekki gert neitt gott fyrir byggðirnar eins og við vitum öll. Kvótar hafa flust á milli og byggðir farið mjög illa út úr þessu kerfi.