148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að hleypa mér að þrátt fyrir að hafa misst af bendingum mínum. Ég kem hér upp til að furða mig á ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem virðist ekki hafa hlustað á það sem þingmenn voru að tala um í þessum ræðustól. Við vorum að gagnrýna þau vinnubrögð sem hér hafa verið höfð uppi. Það er ekki að okkur langi eitthvað sérstaklega til að tala um þessi mál sem eru á dagskrá þingsins í dag. Við vildum gjarnan ræða önnur mál, mál sem við höfum verið svikin um í nefndum. Það er það sem við viljum fá að ræða hérna. Ekki að það séu tekin einhver gælumál stjórnarþingmanna umfram mál stjórnarandstöðunnar sem jafnvel er búið að semja um, svo ég ítreki það enn og aftur. Það væri mjög áhugavert að fá á hreint fyrir lok dags hvort það sé einhver hér, ef ekki forseti, í stjórnarmeirihlutanum sem ætlar sér að standa við þá samninga sem gerðir voru fyrir nokkrum vikum.