148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var langur og undarlegur aðdragandi að svari við spurningu minni en allt í lagi, það er kannski hægt að fara yfir hana í texta seinna. Þetta leit út eins og ráðherra væri að klára framsögu sína í andsvari við þingmann í staðinn fyrir að svara einfaldlega spurningunni því að hún var tekin með lykkju í lokin, sem er sérstaklega áhugavert með tilliti til ásakana um málþóf, að ráðherra finni sig knúna til að eyða tíma sínum af dýrmætri framsögu sem rann út til að ásaka ræðumenn í öðru máli um málþóf. Mér finnst það mjög áhugavert.

Ég skil heldur ekki af hverju í máli af þessu tagi, svona stóru og mikilvægu, skuli eitthvert formlegt ferli, sem þó hefur legið fyrir annars staðar í stjórnkerfinu, í Evrópu o.s.frv., gera það að verkum að Alþingi geti bara stimplað og sagt: Já, þetta er fínt.

Ég bið ráðherra vinsamlegast um að útskýra aftur af hverju hún telur að þingið þurfi aðeins að vera stimpilstofnun í þessu máli.