148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sér enn og aftur ástæðu til að vanda um fyrir öðrum þingmönnum og ráðherrum um vinnubrögð. Það er kannski vel, svo vandaður sem hv. þingmaður er. Ég bendi hins vegar hv. þingmanni á að kynna sér efni og form þessa máls. Þetta eru tvö þingmál, annars vegar persónuverndarreglugerðin, frumvarp til laga um nýja persónuverndarreglugerð sem liggur fyrir, og hefur verið samið af þeim sem margir telja helsta sérfræðing okkar í persónuverndarmálum. Það liggur fyrir og kom fram í umræðum um það við framsögu málsins að það er mjög lítið svigrúm til frávika í þeim efnum. Þar sem er svigrúm er það mjög vel útfært og rökstutt hvaða leiðir voru farnar í þeim efnum. Það er þá fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að ræða, vilji hún víkja eitthvað frá því, og það hefur hún tækifæri til að gera, enda er hún komin með málið.

Hins vegar er í þessu máli um að ræða þessa þingsályktunartillögu. Hv. þingmaður spyr hvert inntak hennar sé. Þingsályktunartillagan telur nákvæmlega sjö greinar. Hér er um það að ræða að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórn að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fylgir með í fylgiskjali I, textinn er þar. Svar Alþingis í þessu máli getur bara verið annaðhvort já eða nei. Annaðhvort samþykkir Alþingi að fela ríkisstjórninni að heimila að staðfesta fyrir Íslands hönd þessa fyrirhuguðu ákvörðun eða ekki. Það er ekki um það að ræða að menn ætli að ræða efni þessarar þingsályktunartillögu. Það liggur bara fyrir að það þarf að taka gerðina upp í EES-samninginn. Þetta er bara eitt mál af ég veit ekki hvað mörg hundruð málum sem hafa komið fyrir Alþingi með þessum hætti. Fyrir eldri þingmenn er þetta ekkert nýtt en ég geri mér grein fyrir að (Forseti hringir.) hv. þingmaður er ný hér á þingi og þarf kannski að setja sig aðeins inn í málsmeðferðina í EES-málum.