148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem er málefnaleg og hefði verið upplagt að ræða nánar. Ég tek undir það, hér er um tiltekið valdaframsal að ræða til hins Evrópska persónuverndarráðs, eins og það heitir. Það er ráð sem tekur núna við af 29. gr. vinnuhópnum sem hefur verið. En það var niðurstaða samningaviðræðna EFTA-ríkjanna við framkvæmdastjórnina um aðila almennu persónuverndarreglugerðarinnar að Evrópska persónuverndarráðið færi með þessar valdheimildir. Hv. þingmaður spyr hvort þetta sé viðhorfsbreyting af hálfu stjórnvalda. Ég get svarað því til að það sé aldeilis ekki svo. Ég bendi á fylgiskjal I með þingsályktunartillögunni, sem er ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, þ.e. drög að texta sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég vek athygli á því að það er óvanalegt að drögin liggi fyrir svona fyrir fram, en þetta liggur núna fyrir. Það fékkst eftir langar og stífar samningaviðræður EFTA-ríkjanna við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða Evrópusambandið að sett yrði fram sameiginleg yfirlýsing samningsaðila. Þetta er í lok þessa fylgiskjals. Þar kemur fram að samningsaðilarnir, með tveggja stoða kerfi EES-samningsins í huga og með tilliti til beinna og bindandi áhrifa ákvarðana Evrópska persónuverndarráðsins fyrir innlend eftirlitsyfirvöld í EFTA-ríkjunum innan EES, taka mið af þeirri staðreynd að ákvörðunum Evrópska persónuverndarráðsins er beint að innlendum eftirlitsyfirvöldum. Þetta er nú það fyrsta sem þarf að hafa í huga, að þessi stofnun, hið Evrópska persónuverndarráð, getur ekki tekið ákvarðanir er lúta að einstaklingum. Og svo líka er skýrt kveðið á um það að samningsaðilarnir viðurkenna að þessi lausn hefur ekki fordæmisgildi fyrir aðlögun gerða ESB sem verða (Forseti hringir.) felldar inn í EES-samninginn í framtíðinni.

Það er mín skoðun að Ísland þurfi að vera á varðbergi gagnvart þessari þróun eins og hún hefur verið. (Forseti hringir.) En hér er þó að minnsta kosti sett fram yfirlýsing af hálfu m.a. Evrópusambandsins í þessum efnum.