148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að njóta þess að vera hér með stöðu þess sem veitir andsvar við ræðu hv. þingmanns. Eins og ég nefndi áðan ætla ég í seinni ræðu minni að fara aðeins yfir þær fjórar leiðir sem voru tækar til upptöku.

Ég hef mikinn áhuga á efni þessarar reglugerðar og veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á því og alveg örugglega einhverjar skoðanir. Þess vegna ítreka ég spurningu mína hvort það sé eitthvert eitt atriði, ég fer ekki fram á meira, bara svo að ég geti haft nesti yfir helgina til að velta fyrir mér, eitt atriði í frumvarpinu sem hann telur að betur hefði mátt fara eða ætti að vera einhvern veginn öðruvísi.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns eftir framsögu mína um persónuverndarfrumvarpið að hann kallaði eftir því að það væri útskýrt, tekið saman, hvaða reglur þetta væru í frumvarpinu, hvað í frumvarpinu, hinum íslenska texta, viki að einhverju leyti frá texta reglugerðarinnar. Það kemur fram á blaðsíðu 36 í lagafrumvarpinu. Þar er einmitt sérstaklega rakið hvaða atriði það eru þar sem heimilt var að víkja frá texta reglugerðarinnar og ekki bara heimilt heldur í sumum tilfellum skylt að útfæra nánar tiltekin atriði. Ég tek sem dæmi samþykki barna við þátttöku á samfélagsmiðlum þar sem reglugerðin kveður á um að aðildarríki geti ákveðið hvort þau hafi lægra aldurstakmark en 16 ára. Það var því nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvaða aldur ætti að gilda hér á landi. Það er einmitt gert í frumvarpinu þar sem miðað er við 13 ára aldur. (Forseti hringir.) Það eru svoleiðis atriði sem þurfti að taka afstöðu til.

En ég ítreka þá spurningu mína hvort það sé eitthvað eitt atriði, þótt ekki væri nema eitt, sem hv. þingmaður gæti nefnt sem þyrfti að vera allt öðruvísi í lagafrumvarpinu til persónuverndarlaga.