148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég greini það af ræðu hv. þingmanns að hún sé ósátt við það sem lagt er til í frumvarpinu er varðar aldur barna til þess að gefa samþykki fyrir að vera á samfélagsmiðlum. Hún fullyrðir að það sé rýrari réttur en réttur barna á meginlandi Evrópu. Hún tiltók reyndar 12 ára börn en í frumvarpinu er miðað við 13 ára aldurinn (Gripið fram í.) og er það sérstaklega rökstutt með vísan til samfélagsgerðar hér á landi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún viti til þess hvernig þetta eigi að vera í öðrum löndum. Hvort einhver önnur lönd ætli að miða við 16 ára aldurinn.

Innan við tíu Evrópulönd hafa tekið til í löggjöf sinni til þess að samræma hana persónuverndarreglugerðinni. Það liggur fyrir að öll ríki Evrópu þurfa að breyta löggjöf sinni þótt reglugerðin sjálf gildi, það þarf að aðlaga löggjöfina sem því nemur sem reglugerðin kveður á um að þurfi að útfæra nánar. Mig langar að vita hvort hún viti hvaða ríki það eru sem ætla að miða við einhvern annan aldur en 13 ára.

Aðallega langaði mig þó að vita nákvæmlega hvað það er sem þingmaðurinn, sem talar alltaf um óvönduð vinnubrögð í þessu öllu saman, hefði viljað sjá. Hún vísar til þess að tilskipanir hafi margar hverjar ekki verið innleiddar hér í mörg ár. Það er alveg rétt. En það er eðlismunur á þessari persónuverndarreglugerð og öðrum reglugerðum og tilskipunum sem Ísland hefur innleitt. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður áttar sig á þeim eðlismun. Og í ljósi þess eðlismunar langar mig að vita hvað það er sem þingmaðurinn hefði viljað sjá gerast, með hvaða hætti og hvenær hún hefði viljað sjá að þessi (Forseti hringir.) persónuverndarreglugerð yrði innleidd í íslenska löggjöf, og einnig þá með vísan til þess að sameiginlega EES-nefndin hefur ekki enn þá tekið gerðina upp í sinn samning, EES-samninginn.