148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fjalla sérstaklega um starfshópinn sem skipaður var í nóvember á síðasta ári og lýsa því hvernig vinna sem hann hóf nú kannski ekki beint, hún var löngu hafin í ráðuneytinu — ég ætla að skýra það í seinni ræðu minni en árétta hins vegar spurningu mína í ljósi þess að gerðin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Það er ekki á forræði dómsmálaráðherra, ef það er markmið hv. þingmanns að hnýta í hann, þótt ég sé nú í embætti utanríkisráðherra. Það liggur alveg fyrir að gerðin sjálf hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Til þessa þarf að líta á samhengið. Það þarf líka að líta til þeirra samningaviðræðna, sem ég hef lýst í ræðu minni og andsvörum, sem fram fóru á milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins um með hvaða hætti ætti að taka upp gerðina í EES-samninginn og þann tíma sem í það fór. Það er óhjákvæmileg forvinna. En það liggur alveg fyrir að vinnan við gerð frumvarpsins var löngu hafin.

Ég spyr hins vegar hv. þingmann: Hvernig hefði hún viljað standa að þessu máli með öðrum hætti? Hefði hún talið eðlilegt að inn á þing kæmi frumvarp til nýrra persónuverndarlaga til dæmis löngu áður en fyrir lágu drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar? Hefði það verið eðlilegt? Hefði verið eðlilegt að leggja fram frumvarpið fyrir t.d. ári síðan? Reglugerðin lá fyrir í íslenskri þýðingu fyrir ári. Það hefði í sjálfu sér líka alveg verið hægt að leggja fram reglugerð eins og gert var í Noregi. Hefði hv. þingmaður viljað innleiða þessa persónuverndarreglugerð með sama hætti og Noregur? Ég vek athygli á því að athugasemdir frá norsku persónuverndarstofnuninni um frumvarpið þar (Forseti hringir.) og innleiðinguna taldi yfir hundrað síður ef ekki mörg hundruð.

Ég spyr: Er það afstaða hv. þingmanns að innleiða hefði átt þessa persónuverndargerð inn í íslenskan landsrétt með hráum texta reglugerðarinnar? Hefði það verið til skýringa á málinu fyrir þá sem þurfa að starfa í þessu umhverfi?