148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[21:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta mál og þetta nefndarálit framsögumanns hér. Ég tel mjög mikilvægt að við gerum meira úr þessu, úr siðareglum þingmanna. Það er mikilvægt að þingmenn komi að því að semja og samþykkja siðareglur sem þeir setja sjálfum sér, ekki bara að þeir taki við siðareglum sem einhver annar samdi og kvitti upp á þær. Það þarf ferli þegar nýir þingmenn koma að til þess að vega og meta og móta hvort eitthvað hafi breyst, hvort aðstæður hafi breyst, því að enginn ætti að skrifa undir siðareglur sem hann telur sig ekki geta farið eftir. Það væri í raun eins mikið brot á siðareglum og hægt væri að hugsa sér. Það er algerlega gegn tilgangi siðareglna að kvitta undir þess háttar reglur sem maður ætlar ekki að fara eftir. Siðareglur eiga að vera ákveðinn ásetningur þeirra sem undirrita siðareglurnar um hvað þeir treysta sér til þess að gera og fara eftir.

Þess vegna er þessi viðbót, í kjölfar #metoo-byltingarinnar, svo rosalega mikilvæg. Það er rosalega mikilvægt að þessi ákvæði verði hluti af umræðunni um siðareglur þingmanna í framtíðinni. Við megum aldrei gleyma að þetta eru atriði sem, eins og #metoo sýndi, eru rosalega algeng. Þau eru meira að segja algengari en sögurnar sýna. Það er vitað mál að aldrei nást allar sögur upp á yfirborðið. Ég er ekki búinn að klára allar mínar sögur um einelti, geri það örugglega aldrei, get samt sagt einhverjar, en aldrei allar. Þetta er ekkert öðruvísi.

Í stærra samhengi höfum við verið í ákveðnum umræðum um siðareglur þingmanna, t.d. varðandi trúnað, þ.e. trúnaðarbrot sem hafa komið upp í umræðunni á undanförnum vikum, trúnaðarbrot innan nefnda.

Í þeirri umræðu fannst mér eitt mjög athyglisvert. Það leit einhvern veginn þannig út að maður gæti ekki gert grein fyrir neinu um það sem gerðist innan nefndanna. Ekki væri hægt að segja að tregða væri innan nefndarinnar og ekki hægt að segja að mótþrói væri í einhverju máli innan nefndarinnar. Ég tel það algjörlega rangt að ekki megi greina frá slíkum störfum innan nefndanna. Því að það er líka hægt að nota trúnað sem ákveðinn verndarskjöld fyrir „búllíisma“, eineltistilburði, eða í raun ákveðið ofbeldi.

Leyndarhjúpurinn verndar þá sem beita slíku ofbeldi. Það komu upp dæmi í lok síðasta kjörtímabils innan nefndar í sveitarstjórn þar sem borgarfulltrúi var sagður hafa hrörnunarsjúkdóm. Þegar greint var frá því var því borið við að það væri brot á trúnaði innan nefnda. Nei, því ásökunin sjálf átti ekki rétt á sér í faglegu starfi innan nefndarinnar. Þetta var persónuárás. Við berum líka þannig ábyrgð innan nefndanna, þó að við megum ekki vitna beint í fólk o.s.frv., að nota ekki einmitt þann vettvang sem árásarvettvang á aðra þingmenn eða aðra borgarfulltrúa, bæjarfulltrúa eða hvernig sem það er og bera því fyrir okkur að ekki megi segja frá því ofbeldi út af trúnaði.

Við verðum að skilja trúnaðinn. Við verðum að skilja að við erum fulltrúar fyrir almenning. Það er eins og allir sitji á öxlunum á okkur og séu að reyna að kíkja yfir en sjái ekki alveg, sjái kannski móðu. Við verðum að geta útskýrt fyrir þjóðinni hvernig störfin fara fram hér á Alþingi og líka það sem er á bak við luktar dyr. Við verðum að geta gert það annars hjálpum við þeim sem geta beitt ofbeldi og skýla sér á bak við það að geta sagt og gert hvað sem þeir vilja undir hótun um að verið sé að brjóta trúnað ef greint er frá því sem gerist.

Þetta spilar aðeins inn á fyrirspurn sem ég var með hér um daginn, um þessar óskráðu reglur eða hefðir réttara sagt. Þetta er ekkert augljóst, alls ekkert augljóst. Siðareglurnar eru ekkert endilega mjög augljósar. Þær eiga að vera víðtækar. Það er hægt að misskilja þær í einu tilviki eða öðru, alveg tvímælalaust. Þannig að við þurfum alltaf að eiga þessa umræðu. Við þurfum að skilja og taka það með opnum huga og opnum augum, nýjum aðstæðum, og læra. Það er í raun það sem skiptir máli. Við þingmenn störfum nefnilega samkvæmt stjórnarskrárákvæði um sannfæringu. Það er eina hæfniskrafan okkar í raun og veru að við störfum samkvæmt sannfæringu okkar. Ég sé ekki neitt sem mótmælir því að hægt sé að setja samasemmerki milli þeirrar sannfæringar og siðferðis eða samvisku fólks. Við erum í raun í starfi sem sannfæring knýr okkur til og samviska okkar knýr okkur til að taka ákvarðanir byggðar á samvisku okkar um þau mál sem ber fyrir augu.

Það er engin krafa um að við séum sérfræðingar í öllu, við þurfum ekki að vera lögfræðingar, við þurfum ekki að vera rithöfundar eða tölvunarfræðingar eða stærðfræðingar eða hvað sem það er. Við þurfum bara sjálf að geta tekið ákvörðun út frá samvisku okkar, sannfæringu okkar. Það eru kröfurnar sem eru gerðar. Það þýðir að við þurfum álit sérfræðinga, álit almennings, álit utanaðkomandi aðila sem leggja fram sína sýn og sérþekkingu á þau mál sem ríkisstjórnin leggur fram eða hvað annað. Við tökum ákvörðun byggða á bestu samvisku um það hvaða rök eru góð, vegna þess að við erum að vinna fyrir þjóðina — kannski ekki allir, kannski er það samviska þeirra eða sannfæring þeirra, það getur vel verið. En siðareglur eru lykilatriði í því og með þeim segjum við hver samviska okkar er.