148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Kæra landsfólk. Heiðarleiki, virðing, réttlæti, jafnrétti — þetta eru þau skýru, sameiginlegu grunngildi sem yfir 1.200 manneskjur sammæltust um árið 2009 að hafa skyldi að leiðarljósi við vinnu þeirra að nýrri framtíðarsýn fyrir Ísland. Sú vinna fór ekki fram í tómarúmi. Hún var svar við ákalli þjóðarinnar um bætt samfélag fyrir alla, samfélag sem byggði á grunngildum sem markvisst hafði verið grafið undan í aðdraganda hrunsins. Fámennur en valdamikill hópur sérhlífinna eiginhagsmunaseggja gaf skít í þessa vinnu landa sinna og nú, tæpum áratug síðar, eru þessi gildi aftur komin ofan í kirfilega læsta skúffu.

Nú höfum við forsætisráðherra sem situr í skjóli svikinna loforða, loforða sem hún gaf eigin kjósendum sem síst af öllu kusu hana til að gegna hlutverki öndunarvélar fyrir aðframkomið valdakerfi.

Við sitjum enn og aftur uppi með fjármálaráðherra sem ítrekað sýnir að orð hans eru merkingarlaus, sem hylmir yfir óþægilegar upplýsingar um sig og sína og lýsir því yfir að samstarfssamningur ríkisstjórnarinnar sé engin siðferðisleg skuldbinding fyrir hann og hans flokk.

Við horfum upp á varðhunda valdsins sameinast um að verja dómsmálaráðherra sem lýgur blákalt að þingi og þjóð. „Ég braut engin lög,“ segir hún aftur og aftur — og aftur. En hún braut lög. Það er óumdeilt.

Við höfum félagsmálaráðherra sem lætur hagsmuni barna mæta afgangi og verðlaunar fúsk.

Og nánast daginn eftir sveitarstjórnarkosningar birtist svo sérstakur gjafapakki fyrir útgerðarmenn, milljarðapakki, á kostnað þjóðarinnar. Sá rándýri pakki mátti ekki sjást fyrir kosningar.

Ég get líka nefnt hvernig þingmenn hafa búið sér til skattfrjálsa kjarabót með margfalt hærri akstursgreiðslum en almennu launafólki bjóðast. Þegar virkt aðhald kemur upp um bixið mála menn eigin spillingu sem baráttu fyrir landsbyggðinni, skjóta sendiboðann og segja aðhaldið „komið út í tóma þvælu“.

Kæra landsfólk. Fólkinu sem fyllir þennan þingsal verður tíðrætt um að auka virðingu þingsins. Það harmar lítið traust til Alþingis og furðar sig á minnkandi kjörsókn. Það lýsir áhyggjum af síminnkandi stjórnmálaþátttöku ungs fólks. En hvar liggur skýringin? Hvernig er grafið undan virðingu og trausti Alþingis? Hvernig lamar maður áhuga fólks á að taka þátt í stjórnmálum? Hvernig er dregið úr vilja ungs fólks til að hafa áhrif á samfélag sitt? Valdið hefur notað til þess sömu ógeðfelldu uppskriftina í áraraðir.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason lýsti þessari aðferðafræði varðhunda valdsins eftirminnilega í tímamótaræðu sinni í nóvember 1982 er hann sagði, með leyfi forseta:

„Þeir munu ráðast að okkur með upphrópunum, með því að loka fjölmiðlunum. Þeir munu reyna að hæða okkur, reyna að láta allt líta út sem upphlaup eða gífuryrði.“

Þetta þekkir fólkið sem leitar réttar síns, fólkið sem finnst kerfið hafa brugðist sér og finnur ósjaldan fyrir grimmu viðmóti þess sama kerfis gagnvart ákalli þess um úrbætur. Fólkið sem vill úrbætur í barnaverndarmálum og kynferðisbrotamálum og í starfsháttum lögreglu. Fólkið sem vill úrbætur í umhverfismálum, gæsluvarðhaldsmálum, fangelsismálum og flóttamannamálum. Og fólkið sem vill skýringar og úrbætur á reglum sem gilda um uppreist æru. Allt þetta fólk lendir viðstöðulaust í því að kerfið ver sig, svarar með hroka og stælum, afsalar sér ábyrgð, embætti benda hvert á annað í skollaleik þeirra sem aldrei taka ábyrgð á gjörðum sínum og virðast hafa það sem sitt eina markmið að verja kerfið fyrir fólkinu sem það á að þjóna. Og ef maður gengur of nærri þeim sem valdið hafa er bara sett lögbann. Og ef maður gengur of nærri þeim er manni bara hótað málsókn. Og ef maður gengur of nærri þeim er ráðist að persónu manns og heiðri og manni gerður upp illur ásetningur.

Ekkert af þessu eykur traust og virðingu fólks fyrir Alþingi og stjórnmálamönnum. Þar þarf annað að koma til. Fyrst af öllu þarf þessi ríkisstjórn, við þingmenn, þetta stjórnkerfi, að líta vandlega í eigin barm.

Hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar verða að hætta að gera kerfisbundið lítið úr ungu fólki og vandræðum þess og tala um að það sé bara með einhvern aumingjaskap. Það virkar heldur ekki hvetjandi fyrir lýðræðisvitund almennings að hlæja að því þegar fólk býður sig unnvörpum fram til að þjóna samfélaginu. Það gengur heldur alls ekki að það sé aldrei að marka neitt sem stjórnmálafólk segir, að engu skipti hvað maður kýs því að maður fái alltaf sömu endemis niðurstöðuna. Það gengur heldur ekki að ef þú sem kjósandi vogar þér að kvarta undan þessu segi ráðamenn þjóðarinnar þér að þú skiljir ekki neitt, vitir ekki neitt og getir ekki neitt og þú ættir nú eiginlega helst að þegja. Kannski sértu bara geðveikur að sjá ekki hvað allt er frábært.

Nei, við sem hér störfum eigum að ganga fram með góðu fordæmi og taka ábyrgð, segja satt og rétt frá og standa við orð okkar. Ekki fela okkur á bak við tæknilegt kjaftæði um að við höfum aldrei beinlínis lofað því að leiða ekki Sjálfstæðisflokkinn til valda. Ekki segjast fyrir kosningar styðja að frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verði að lögum en segja svo eftir kosningar að stjórnarskrármál séu best geymd í nefndaskúffu í eins og átta ár í viðbót. Ekki segjast fyrir kosningar ætla að hækka veiðigjöld og einhenda sér svo í það að lækka þau um milljarða korteri fyrir þinglok.

Ef hæstv. ríkisstjórn er raunverulega umhugað um að auka virðingu og traust til Alþingis og stjórnmálanna almennt er bara eitt að gera: Hættið að sýna þeim sem taka ábyrgð og hafa metnað fyrir þátttöku í eigin samfélagi óheiðarleika, fyrirlitningu, óréttlæti og valdhroka. Sýnið þeim þess í stað heiðarleika, virðingu, réttlæti og jafnrétti.