148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[22:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Fyrir fáeinum mánuðum stóð ég í þessari pontu og lýsti því yfir að ég hefði mikla trú á forsætisráðherra og að ég vildi gefa nýrri ríkisstjórn tækifæri á að sanna sig og sýna okkur fram á að sagan þyrfti ekki að endurtaka sig, að hinn margboðaði pólitíski friður ríkisstjórnarinnar væri í þágu þjóðarinnar allrar en ekki til varnar völdum og hagsmunum sumra. Í sömu ræðu lýsti ég því yfir að við sem störfum á þingi undir merkjum Viðreisnar einsettum okkur að styðja við góð mál, fylgja sannfæringu okkar og tala fyrir grundvallarhugsjónum okkar. Þar með var tónninn sleginn af hálfu Viðreisnar og við hann hefur verið staðið.

Nú, aðeins sex mánuðum síðar, verð ég að viðurkenna að ég var mögulega aðeins of bjartsýn. Stjórnarsáttmáli Katrínar Jakobsdóttur boðaði breytt vinnubrögð og fyrir manneskju sem er aðeins eldri en tvævetur í pólitík hljómaði það spennandi; eftirsóknarverð tilraun sem ég vildi sjálf stuðla að og taka þátt í, ekki síst vegna þess að þjóðin á skilið að við vöndum okkur og vinnum betur saman. En í dag kveður við annan tón. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa sýnt sitt rétta andlit og það á undraverðum tíma. Aðgerðaleysi, valdhroki og yfirlæti er það sem kemur upp í hugann í stað þeirra fögru orða sem látin voru falla um ný vinnubrögð og eflingu Alþingis.

Kæru landsmenn. Á eldhúsdegi er ákveðin tiltekt í gangi, þá er dregið fram það sem gert hefur verið eða vanrækt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Förum aðeins yfir stöðuna. Ekkert frumkvæði er hjá ríkisstjórninni til að tryggja breiða sátt um bætt kjör kvennastétta. Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið í kapphlaupi við að tala niður EES-samninginn. Enn er beðið með að afnema krónu á móti krónu skerðinguna en samt er hægt að lækka veiðigjöld. Stjórnarþingmenn eru mjög þefvísir eins og leitarhundar á öll þau höft sem hægt er að setja þegar kemur að innflutningi matvæla. Hagur neytenda sætir afgangi. Ekki er farið í uppfærslu á vaxta- og barnabótum. Ekkert glittir í nýtt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Aðgerðaleysi eða ákvörðunarfælni gagnvart ferðaþjónustunni er hrópandi. Enginn áhugi er hjá ríkisstjórninni að koma á almennum samkeppnisreglum í mjólkuriðnaði og enn og aftur eru neytendur látnir borga brúsann.

Engar skýrar línur eru merkjanlegar í samgöngumálum þjóðarinnar, ekki í almenningssamgöngum eins og borgarlínu eða við uppbyggingu innviða.

Engar tillögur má finna sem stuðla eiga að víðtækri sátt um greiðslu fyrir aðganginn að sjávarauðlindinni. Í staðinn er smyglað inn frumvarpi á síðustu dögum þingsins sem hefur þann tilgang einan að lækka gjöld fyrir aðganginn að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, algjörlega án samráðs eða tilraunar til víðtækrar sáttar. Það er engin tilviljun að þetta mál er keyrt í gegn af sömu flokkum, sömu þingmönnum sem vildu að ríkið myndi niðurgreiða launakostnað útgerða um mörg hundruð milljónir á síðasta ári og þrýstu mjög á um að framlengja skuldaafslátt útgerða. Við því var auðvitað ekki orðið.

Að þetta frumvarp veiti litlum útgerðum svigrúm er algjör fyrirsláttur, það sýna skýrslur, og er ekkert annað en þjónkun við þá stærri í greininni og bestu vini stjórnarflokkanna. Aldrei má ræða fílinn í herberginu, íslensku krónuna, þegar vitað er að skynsamlegar breytingar á peningamálastefnunni ýta undir stöðugleika og lækka vexti, öllum til hagsbóta um land allt.

Þegar þetta er tekið saman eru falleg orð í stjórnarsáttmála um breytt vinnubrögð og eflingu þingsins hjómið eitt, sér í lagi þegar litið er til síðustu daga þegar jafnvel nýjar óskráðar reglur eru myndaðar af meiri hlutanum til að keyra málin í gegn.

Við í Viðreisn höfum á hinn bóginn með viðveru okkar í pólitík sett ákveðin mál á dagskrá. Nýr gjaldmiðill, alþjóðasamstarf, frelsi, samkeppni og jafnrétti. Við höfum sett okkur það markmið að hafa kjark til að benda á krónuna, landlæga kerfisvillu í samfélaginu sem allt of lengi hefur komið niður á heimilum í landinu. Hvernig lífsgæðum okkar er skipt er nefnilega ekki einkamál sumra, ekki frekar en að frelsið sé fyrir fáa útvalda.

Við munum taka afstöðu með frelsinu gegn forræðishyggju og íhaldssemi, velja alþjóðasamstarf gegn einangrunarhyggju, samkeppni í stað fákeppni og verðum hávær (Forseti hringir.) ef skerða á frelsi einstaklingsins. Því miður sé ég engan af stjórnarflokkunum gera það í dag. Það er ótrúlegt en satt.

Virðulegi forseti. Eftir ræður kvöldsins er nokkuð skýrt að Viðreisn hefur komið við kaunin á ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Eitthvað höfum við ruggað bátnum sem veit á gott. Það er því deginum ljósara að erindi Viðreisnar hefur aldrei verið mikilvægara fyrir íslenskt samfélag. Þið getið treyst því að við munum standa vaktina.