148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

veiðigjöld.

[10:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Okkur greinir á að ákveðnu leyti. Ég er sammála því að veiðigjaldið þarf að afkomutengja að hluta til, en ekki að öllu leyti. Ég horfi ekki á það sem skatt. Ég horfi á það sem aðgangsmiða að auðlindinni. Útgerðin á að greiða fyrir hráefni sem er sameiginleg auðlind þjóðarinnar, punktur. Þetta er ekki skattur, þetta er aðgangsmiði að því að fá að veiða úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er ekki hægt að afkomutengja það eingöngu.

Í öðru lagi var þessi skýrsla skrifuð að minni forgöngu. Það var nefnilega endalaust þessi kór að það væri svo hart í ári hjá útgerðinni. Það gerðist í sjómannaverkfallinu. Ríkisvaldið átti að koma með ríflega hálfan milljarð til að niðurgreiða laun útgerða. Síðan átti að framlengja skuldaafslátt fyrirtækja af því að það væri svo rosalega erfitt hjá þeim. Þess vegna var farið af stað með Deloitte-skýrsluna. Og hvað kemur í ljós? Jú, að afkoman hefur versnað aðeins. EBITDA hefur farið úr 22% í 16%.

En er það léleg afkoma? Síður en svo. Ef við berum sjávarútveginn saman við allar aðrar atvinnugreinar — og ég horfi hér á ráðherra ferðamála sem ætti að hafa verulegar áhyggjur af (Forseti hringir.) stöðunni í ferðaþjónustu — sjáum við að sjávarútvegurinn er í grunninn vel rekin, (Forseti hringir.) vel stæð atvinnugrein. Það er engin ástæða til þess að fara út í þessa lækkun veiðigjalda sem helst snýr (Forseti hringir.) að því að lækka veiðigjöld þeirra best stæðu, stærstu útgerða landsins. Það er það sem ég hef áhyggjur af.

(Forseti (SJS): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)