148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum.

[10:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir fyrirspurnina um samgöngumál á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég veit ekki hvort ég tek undir það, eða íbúar Vestmannaeyja, að samgöngur þangað séu betri en á nokkrum öðrum stað á landinu. Vestmannaeyingar eru auðvitað algjörlega háðir ferjusiglingum eða flugi, geta ekki keyrt einn einasta veg, ekki einu sinni vondan veg, eins og tilfellið er á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þingmanni að saga stjórnsýslu og undirbúnings á nauðsynlegum vegaframkvæmdum, til bóta fyrir bæði almenning og fyrirtækin á svæðinu, er sorgarsaga og hefur tekið allt of langan tíma.

Nú er það í ákveðnu ferli eins og hv. þingmaður kom aðeins inn á. En fyrirspurn hans var um það hvernig við getum komið til móts við þessar aðstæður með skýrari hætti. Ég veit að Vegagerðin hefur gert það í vetur. Þegar þær aðstæður hafa verið uppi hafa menn reynt að liðka fyrir með aukinni þjónustu á veginum. Það var reyndar þegar Baldur var tekinn í slipp og seinkaði um allt of langan tíma vegna óvæntra bilana.

Þær hugmyndir að sigla oftar til að tryggja þarna samgöngur hafa komið til skoðunar og verða til skoðunar. Mér finnst hugmyndin ekki slæm. Samgöngur eru með þeim hætti að eftirspurn og þörf er fyrir að koma vörum á markað, fólki til þjónustu. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða á hverjum tíma. Ég tek þessa fyrirspurn hv. þingmanns til mín til enn frekari skoðunar.