148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum.

[11:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að þungaflutningar fara verr með vegina en flest annað, bæði vöruflutningar og eins fólksflutningar. Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að sjá á liðnum árum í vaxandi mæli og sérstaklega eftir þennan erfiða vetur; ófyrirséðar skemmdir á vegunum sem menn bjuggust ekki við í mati Vegagerðarinnar, bæði í fyrra og eins í vetur. Það vakti furðu mína í umræðum hér í gær að hv. þingmenn, þeirra á meðal samflokksmenn fyrirspyrjanda, voru að hnýta í það að ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við þeim ófyrirséða vanda og setja aukna fjármuni í að bæta vegina. Það er tilgangur okkar sem erum í stjórnsýslunni að bregðast við. Þessa ábendingu hv. þingmanns, um að hugsanlega þurfi að gera það með öðrum hætti á sunnanverðum Vestfjörðum vegna aukinna flutninga, er sjálfsagt að skoða á sama hátt og það er sjálfsagt að skoða hvernig við getum brugðist við hinum ófyrirséða vanda sem hefur komið upp á liðnum vetri með því að setja aukið fjármagn í viðhald á vegum hringinn í kringum landið. Hún kom mér mjög á óvart umræðan sem meðal annars kom frá hv. samflokksmönnum fyrirspyrjanda í gærkvöldi.