148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

siðareglur ráðherra.

[11:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er svarið sem ég bjóst við, sem betur fer. Auðvitað hafa siðareglur ráðherra sérstaklega áhrif í málum þar sem ráðherra beitir ráðherravaldi að eigin frumkvæði. Þar þarf sérstaklega að vanda til verka. Siðareglur ráðherra eru einmitt mjög skýrar um þetta og í 7. gr., um ábyrgð, segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal sýna samstarfsvilja séu störf hans tekin til skoðunar af hálfu Alþingis eða eftirlitsstofnana þess og eins þegar þingmenn óska eftir upplýsingum á grundvelli laga um þingsköp.“

Hæstv. forsætisráðherra. Hvers konar samstarfsvilji er það að svara ekki fyrirspurnum í langan tíma annars vegar og þegar svör loksins berast eru þau einfaldlega ósönn? Hvaða ábyrgð mun hæstv. forsætisráðherra axla á svona svörum frá ráðherra í hennar ríkisstjórn? Hvers konar ábyrgð mun fjármálaráðherra axla? Eða er þetta bara enn eitt dæmið um íslenska pólitíska ábyrgð? Ráðherra segir ósatt og kemst upp með það?