148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

629. mál
[13:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum. Frumvarpið varðar dvalarleyfi vegna samninga við erlend ríki.

Eins og sjá má af greinargerð með frumvarpinu hefur það þýðingu í samningum við erlend ríki þegar samið er um gagnkvæm dvalarleyfi og réttinn til þess að stunda tímabundið störf í viðkomandi landi og hvernig háttar til með greiðslu fyrir dvalarleyfi hér á landi.

Í stuttu máli hafa íslensk stjórnvöld átt í viðræðum við Japan um gagnkvæma samninga á þessu sviði. Í þeirri samningsgerð hefur reynt á gjaldtöku hér á landi. Það hafa komið fram athugasemdir af hálfu viðmælenda okkar um að það væri óásættanlegt að greiðsla þyrfti að koma fyrir dvalarleyfi á grundvelli samningsins. Þetta er sjónarmið sem við höfum fullan skilning á, enda sé full gagnkvæmi í samningunum um þetta atriði. Þess vegna er hér komið fram frumvarp til laga um að við 32. tölulið 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi:

„Eigi skal þó greiða fyrir dvalarleyfi skv. 66. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sé samningur samkvæmt þeirri grein í gildi og þar sé kveðið á um undanþágu frá greiðslu.“

Þetta er tiltölulega einfalt mál, virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja allt efnið í greinargerðinni. Ég tel að þar sé nánar og vel gerð grein fyrir þessu máli. Þetta tengist gagnkvæmum rétti og skyldum sem við sækjumst eftir að ná samningum um við Japan. Ég vil þakka fyrir að málið fái að komast á dagskrá og vonast til þess að það fái skjóta afgreiðslu, enda einfalt, á þessu þingi.