148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er ekkert vondur. Þessi tvö mál eru keimlík, en að grunni til ólík með tilliti til þess að hverju þau miða. Sú þingsályktunartillaga sem er rætt um hér miðast við menn sem notendur og lesendur þess efnis sem þarna er sett á stafrænt form. Hitt málið sem ég bar saman við snýst um þá sem eru að lesa tölvur, en hafa ekki pening til þess að borga fyrir efnið út af fyrir sig. Í því fyrirkomulagi þar sem tölva er notuð til þess að lesa bækur, til þess að læra tungumál, læra tölfræðilegar tengingar á orðum og stöðum o.s.frv. fyrir íslenskt tungumál, til þess að gera íslenskuna stafræna, er það einfaldlega ógerlegt, fyrir þá sem eru að láta tölvuna vinna það verkefni, að greiða höfundagjöld fyrir tugi þúsunda bóka sem þarf til þess að ná því samhengi sem tölvan þarf til þess að læra og gera íslenskuna stafræna.

Þarna eru tvímælalaust samverkandi þættir þar sem annars vegar er tölva sem er að gera íslenskuna og á sama tíma er hægt að nota það til þess að hjálpa til við að ná markmiðum þessarar þingsályktunartillögu.

Ég held að Alþingi ætti að taka bæði þessi mál, þetta mál tvímælalaust — það getur auðveldlega byrjað á því strax — en við ættum að taka hitt málið, undanþáguna frá höfundalögum hvað stafræna íslensku varðar, mjög alvarlega. Það eru að verða rosalega stór stökk í tölfræðilega stafrænni tungumálatækni í hinum stóra heimi. Það eru einfaldlega erlendir aðilar sem eru orðnir betri í (Forseti hringir.) stafrænni íslensku en Íslendingar. Því fyrr sem við gerum eitthvað þar þeim mun betra.