148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:24]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um merkilegt framfaramál. Í nefndarálitinu kemur fram að undirbúningur þess er þegar hafinn, ýmiss konar undirbúningur hefur farið fram. Það er verst til þess að vita að til er feiknarlegur bókakostur sem bæði fölnar og molnar vegna þess að stór hluti hans er ekki á sýrufríum pappír, eins og allir vita. Með þessu framtaki verður til meira aðlaðandi lesefni fyrir margan manninn, einkanlega þá sem helst vilja lesa á skjá, fyrir utan það að þessi miðill er minna forgengilegur en bækurnar sjálfar. Með því öllu má tryggja aðgengi að mörgum bókagersemum sem eru lítt aðgengilegar þess utan, ýmist vegna fárra eintaka, vegna þess að þær eru dýrar eða menn vilja kaupa upprunalegu bækurnar.

Ég ætla ekki að fjölyrða um framkvæmdina sjálfa. Hún er sennilega bæði nokkuð tímafrek og að einhverju leyti flókin, en fagna afgreiðslu málsins og hvet til öflugrar vinnu í framhaldinu.

Það fer enginn í grafgötur með að þetta framtak á eftir að efla íslensku sem tungumál í vörn. Það tel ég hana einmitt vera, í vörn, þótt hún sæki fram á nokkrum sviðum og þá einmitt vegna þess að menn leggja alúð í ýmiss konar átak og ýmiss konar leiðir til að efla tungumálið. Maður getur því fullyrt að hér komi fram mikilvægur liður í málrækt í landinu.

Herra forseti. Sem rithöfundur mun ég taka fullan þátt í því sem að mér kann að snúa í þeim efnum og koma sem mestu af fjölda verka minna í stafrænt form, hvort sem það eru fróðleiksbækur, skáldsögur eða ljóðabækur, hvernig svo sem höfundarétti verður lent. Ég ætla ekki að fjölyrða neitt nákvæmlega um þau mál, hvorki réttindamálin sjálf né hugsanlega greiðslur.

Þetta er í stuttu máli gleðilegt og jákvætt mál í allri neikvæðu umræðunni sem oft dynur yfir, bæði í þjóðfélaginu almennt og á þingi.

Ég ætla að lokum að leyfa mér að þakka hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir þá skilvirku vinnu sem þau hafa innt af hendi og lít fram á góða stafræna bókadaga.