148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að útskýra stafræna íslensku. Þessi þingsályktunartillaga leggur til endurgerð íslensks prentmáls á stafrænu formi. Það er hálft skref í átt að því að gera íslensku stafræna. Hitt skrefið, heildarskrefið og stærra skrefið í raun, er að tölvan skilji íslenskt mál.

Ef við gerum íslenskuna stafræna, sem er gríðarlega stórt skref, kostar það kannski einhvern pening en ég leyfi mér að fullyrða sá peningur er einskiptiskostnaður og mun duga okkur í þúsundir ára. Kostnaðurinn á heildina á litið er ekki teljanlegur en arðurinn felst í ódauðlegu máli á stafrænu formi.

Stafræn íslenska stækkar lesendahóp íslensku. Ég leyfi mér að fullyrða að höfundar eru ekki hlunnfarnir í því umhverfi. Eina leiðin til að gera íslenskuna stafræna er að hleypa tölvum í það að greina íslenskt bókmál og talmál. Til þess þarf gríðarlegt magn upplýsinga. Vissulega gætum við gert einhvern einskiptiskostnað til að greiða öllum höfundum ákveðna upphæð eða eitthvað því um líkt, en höfundar fara tvímælalaust ekki illa út úr því ef lesendahópur þeirra stækkar. Þær stafrænu bækur sem verða til vegna þessarar þingsályktunartillögu verða aðgengilegar miklu, miklu fleiri lesendum. Ef íslenskan er stafræn getur einhver í Japan keypt bók á Íslandi og einfaldlega lesið hana á japönsku, eða jafnvel íslensku, ég á við að bókin er þýdd strax yfir á japönsku. Það virkar í báðar áttir. Ég get keypt japanska bók sem er sjálfkrafa þýdd yfir á íslensku. Það er kosturinn og auðurinn við að gera íslensku að stafrænu máli.

Eins og fólk þekkir með sjálfkrafa þýðingar er viss fagurfræðilegur galli á þeim, alla vega eins og er. En tölva getur jafnvel lært stíl þegar allt kemur til alls. Ég set mig ekki í þau spádómsspor að ætla núverandi ástandi og núverandi fagurfræði tölvuþýðinga þær takmarkanir sem þær hafa núna. Ég býst við miklu meiri framförum á þeim vettvangi, en einungis ef við leyfum tölvu að lesa verkin okkar náum við þeim árangri.

Ég hvet alla vega til þess, ef ákveðið verður að afgreiða ekki undanþágu frá höfundalögum um að tölvur geti lesið höfundavarið efni til þess að læra íslensku, að starfshópurinn, þótt það sé ekki tekið sérstaklega fram í þessari þingsályktunartillögu, taki sér líka það verk að greina hvort ekki sé nauðsynlegt að keyra það verkefni samhliða því að gera íslenskuna algjörlega stafræna, ekki aðeins bækurnar.