148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum þær ábendingar sem hann kom með hér. Ég sé að ég hef tekið vitlaust skjal með mér, nú tek ég þetta bara eftir minni. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að eitt af því mikilvægasta sem kæmi út úr því að koma bókmenntaarfinum á stafrænt form væri einmitt að nýta hann í rannsóknir, nýta hann í vélvinnslu, við að hjálpa tölvum að læra íslensku, að vera með miklu auðugri ritmálsskrá en áður hefur verið. Þau atriði sem þingmaðurinn kemur inn á hér eru mjög í takt við það sem rætt var á vettvangi nefndarinnar.

Hvað varðar höfundaréttinn, ef maður lítur á verkefnið í dálítið víðu samhengi, þá er það sennilega það eina sem orðið getur ásteytingarsteinn. Það er þess vegna sem lagt er upp með það að unnið verði með höfundaréttarhöfum til að finna einhverja leið til að koma verkefninu áfram. Í þeirra röðum er vilji til þess að koma þeim hluta bókmenntaarfsins sem ekki er markaðsvara lengur, sem er stærsti hluti hans, í hendur almennings og í vélvinnsluna sem þingmaðurinn nefnir og alla þá dásamlegu hluti sem hægt væri að vinna upp úr því.

Ég held að þau atriði sem þingmaðurinn nefnir hér séu ekki til að hafa áhyggjur af, heldur einmitt eitt af því sem verður skoðað af þeirri nefnd sem hér er lagt til að taki til starfa.