148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það, ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði. Mig langaði kannski að bæta örlitlu við varðandi rannsóknirnar. Ég tel mikilvægt að ekki sé miðað við rannsóknir, þ.e. að það skipti ekki máli hver tilgangurinn sé. Ef tilgangurinn er einungis vísindalegar rannsóknir, sögulegar rannsóknir, hvernig sem það er, þá skilar þetta sér ekki jafn skilmerkilega til almennra neytenda, t.d. til þeirra Japana sem ég nefndi sem kannski myndu vilja lesa íslenskar bækur. Ég held að það sé prófessor eða doktor í málvísindum í Tókýóháskóla sem er að vinna að tungumálakennslu sem byggist á ákveðnum forsendum og tungumálaeiginleikum, gleymskufalli eins og það er orðað. Það mun að lokum skila okkur miklu betri árangri á skemmri tíma að geta notað afurðina og það sem tölvan lærir til þess til dæmis að kenna en ekki bara til þess að gefa út vísindaritgerðir eða til rannsókna.