148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að það er svolítið kaldhæðnislegt að ég komi upp á eftir síðasta ræðumanni því að ég ætlaði einmitt að draga fram það sem er eftir sex mánaða ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og það er versnandi heilbrigðiskerfi, tvöfalt heilbrigðiskerfi sem við erum að fara að koma upp á Íslandi. Við sáum opið bréf Önnu taugalæknis, mál sem allir þekkja. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp það sem Tómas Guðbjartsson, okkar helsti sérfræðilæknir á Landspítalanum, segir m.a.:

„Sem læknir starfandi á LSH, get ég staðreynt hversu mikil vöntun er á taugalæknum, t.d. þegar við þurfum ráðgjöf þeirra eftir aðgerðir. Einnig hef ég orðið vitni að eyðimerkurgöngu vina og fjölskyldumeðlima sem hafa reynt að komast að hjá taugalækni — bið sem oft skiptir mánuðum. Eitthvað sem er algjörlega ólíðandi í velferðarsamfélagi eins og Íslandi — og það árið 2018.“ — Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram með þetta. — „Þegar læknar eins og Anna og Martin Ingi, sem eru á meðal best menntuðu íslensku lækna nokkru sinni, fá þessar móttökur á Íslandi er hættan sú að þau hreinlega hætti við að flytja til Íslands. Enda geta þau valið um toppvinnu um allan heim. Þessi ákvörðun — sem er eins og blauta tuska í andlit þeirra, en líka í andlit okkar læknanna hér heima og sjúklinga og aðstandendur þeirra — er fáránleg og ber fingraför óskiljanlegrar bjúrókrasíu. Ákvörðun sem er heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi ekki til sóma.“

Þetta er nákvæmlega staðan. Út af kreddum, hugsjónakreddum að mínu mati, er ekki verið að auka hér valfrelsi sjúklinga. Það er ekki verið að ýta undir þjónustu við sjúklinga sem á að vera lykillinn að þessu, ekki það hversu fyrir marga ríkisstarfsmenn við getum aflað vinnu, heldur eigum við að fókusera á sjúklinginn. Þá verðum við að leita allra leiða, hvort sem það eru sérfræðilæknar eða Landspítalinn sem við eigum að leita til. Við eigum að leita að því og byggja upp þannig umhverfi að þjónustan við sjúklinga verði sem best. Kreddur eins og eru núna uppi í heilbrigðisráðuneytinu eru ekki til þess fallnar að byggja hér upp samfélag sem er fyrir alla.